Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 5

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 5
Er ekki allt gott að frétta? 5 Úrræði og árangur Aukin úrræði og samvinna alþjóðasamfélagsins er að skila gríðarlegum árangri í forvörnum gegn hiv og alnæmi í heiminum. 8 milljónir jarðarbúa eru komnir á lyfjameðferð og eru alþjóðleg markmið að 15 milljónir manna verði á lyfjum við hiv árið 2015. Alnæmistilfellum hefur fækkað umtalsvert og það hefur blessunarlega dregið úr úbreiðslu hiv á heimsvísu, ákveðin ríki og landssvæði hafa verið til eftirbreytni hvað varðar forvarnir og meðferð. Í Austur- Evrópu og víðar hefur ekki enn dregið úr útbreiðslu. Því miður á það einnig við um Ísland en tæplega 50 manns hafa greinst hérlendis með hiv á síðustu tveimur árum sem er óásættanlegur fjöldi. Þessi mikla aukning skýrist m.a. af skyndilegri og hraðri útbreiðslu hiv meðal fíkla sem deila með sér óhreinum sprautubúnaði. Margt bendir þó til að toppnum sé náð og að árið 2012 verði nýsmit færri og dreifingin milli áhættuhópa jafnari. Sett hefur verið á laggirnar samstarfshópur á vegum Sóttvarnaráðs þar sem HIV-Ísland á fulltrúa. Hópurinn vinnur að tillögum að úrræðum sem gætu lágmarkað þennan skaða meðal fíkla og vonandi dregið úr frekari útbreiðslu. Eftir merkilega atburðarás hiv og alnæmis síðustu 30 árin lítur framkvæmdastjóri HIV-Íslands vonglaður fram veginn. Aldrei hefur ríkt eins mikil bjartsýni um árangur baráttunnar gegn útbreiðslu hiv í heiminum og nú. Eftir hörmungar undanfarinna áratuga þar sem milljónir manna hafa þjáðst og dáið af völdum alnæmis er að skapast þekking og tækni til að ná böndum á heimsfaraldrinum. Lyfjameðferðir gegn hiv hafa tekið slíkum framförum að einstaklingar á vel samsettri meðferð eru ekki smitberar í þeim mæli sem var. Það gerir tilveru hiv jákvæðra svo sannarlega léttbærari, að vera á lyfjum sem ná að halda veirunni svo vel í skefjum að þeir eru ekki lengur smitandi. Jafnframt eru menn vongóðir um að bóluefni gegn hiv veirunni verði að veruleika innan ekki svo margra ára. Ímynd hiv og alnæmis verður væntanlega eðlilegri og sanngjarnari í kjölfar þess að sjúkdómurinn er orðinn viðráðanlegri, því það eru gömul og ný sannindi að þegar þekking og skilningur eykst, þá minnkar óttinn. Samskonar viðhorfsbreyting átti sér stað gegn berklum, með tilkomu berklalyfja, um miðja síðustu öld. Félagsstarfið Þrátt fyrir erfiðleika við að láta endum ná saman í rekstri HIV-Íslands í ár, sem helst skapast af fjórðungs lækkun styrkja frá Velferðarráðuneytinu, hefur tekist að halda úti öflugu starfi: Öflugt fræðslu- og forvarnarstarf á sér stað í grunnskólum landsins, fangelsum, meðferðarstofnunum, læknadeild og fleiri deildum háskólanna svo eitthvað sé nefnt. Árleg minningarguðsþjónusta um þá, sem látist hafa af völdum alnæmis, var haldin í Fríkirkjunni og einnig héldum við upp á alþjóðlegan dag alnæmis 1. desember með opnu húsi. Uppákomur þessar eru mest sóttu viðburðir félagsins. Innra starfi félagsins er best lýst með hugtökum eins og samvinna, samkennd, virðing, traust, stuðningur, styrking, nám, heilsuefling og sjálfstraust. Þessi gildi eru höfð í hávegum, hvort sem um er að ræða einstaklingsráðgjöf eða hópvinnu. Margt er líka gert til skemmtunar, svo sem árlegt þorrablót, matarkvöld og veitingahúsaferðir. Frá framkvæmdastjóra Merk tímamót HIV-Ísland mun fagna 25 ára afmæli sínu á næsta ári, 2013. Á þeim tímamótum munum við minnast allra þeirra með þakklæti sem lagt hafa hönd á plóg við fræðslu og forvarnir. Auk þess að horfa um öxl og þakka fyrir það sem hefur áunnist meðal hiv-jákvæðra í glímunni fyrir auknum skilningi og umburðarlyndi munum við horfa fram veginn til framtíðar sem verður sífellt bjartari. Besta afmælisgjöfin frá samfélaginu á næsta ári væri jákvæð og málefnaleg umræða um hiv og alnæmi. Einar Þór Jónsson

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.