Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 15

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 15
15 Hvað flaug nú um huga þinn þegar þú gekkst þarna milli herbergja Hvíta hússins? Það var mjög sérstök tilfinning að labba þarna um. Ég fór nú ósjálfrátt að hugsa um þá miklu sögu sem býr í þessu húsi, það var eiginlega ekki hægt annað þegar augu fyrri forseta fylgdust grannt með manni ofan af vegg. Ég hugsaði líka um valdið sem maður tengir húsinu. Annars var það svo skrýtið, að vegna þess hve andrúmsloftið var afslappað og heimilislegt, varð tilfinning mín fyrir þessu valdi bara jákvæð. Svo kom Obama allt í einu labbandi í fylgd með einhverjum ráðgjöfum sínum og heilsaði upp á mannskapinn. Þetta var allt eitthvað svo blátt áfram. Hvernig var að hitta forsetann svona augliti til auglitis? Hefur hann góða nærveru? Fyrir það fyrsta er hann mjög hávaxinn og grannur, örugglega um 1,90 m á hæð. Hann hefur magnaða nærveru og er rosalega sterkur persónuleiki, maður skynjaði það. Svo hélt hann stutta en mjög hnitmiðaða tölu þar sem hann þakkaði okkur fyrir okkar skerf í þágu forvarna. Hann þakkaði okkur í rauninni fyrir tilveru okkar og var almennt að hvetja okkur til að halda áfram. Svo bar hann okkur kveðju Michelle, eiginkonu sinnar, en hún gat því miður ekki verið með okkur þar sem hún var flogin til London á Ólympíuleikana sem haldnir voru þessa sömu daga. Hvað gaf Obama þér að borða? Við fengum voða fínan mat og drykkjarföng af öllu tagi. Það voru risarækjur með salsa í forrétt, lambakótilettur í aðalrétt og súkkulaðikaka í eftirrétt. Þetta var mjög heimilislegt. Borðaði hann með ykkur? Nei, hann gerði það reyndar ekki en hann labbaði um og spjallaði við okkur fyrir matinn. Svo hitti ég líka Hillary Clinton en hún var stödd þarna í Hvíta húsinu. Ég fór svo aðeins á undan hinum úr boðinu því ég þurfti að drífa mig út á flugvöll til að ná vélinni heim. Ég fór bara út og einhver við útidyrnar þakkaði mér fyrir komuna, svo stökk ég niður tröppurnar, út um hliðið og allt í einu var ég bara kominn út á götu. Þar lít ég við og sé Hvíta húsið og tek af því mynd. Skrýtið hvað þetta var auðvelt. Vá! Eina stundina var ég þarna inni að tala við Obama, og þá næstu er ég bara kominn út á götu og horfinn í mannfjöldann. Ég hugsaði líka, vá hvað þetta var auðvelt! Var ég virkilega þarna inni í Hvíta húsinu? Þetta er nú líka stórkostleg breyting á stuttum tíma. Þar til fyrir stuttu síðan máttir þú ekki koma til Bandaríkjanna af því þú er hiv-jákvæður og svo ertu bara allt í einu mættur í Hvíta húsið sem fulltrúi hiv-jákvæðra frá Íslandi! Já, það er rétt hjá þér, þessu hefði ég ekki trúað fyrir ekki svo löngu síðan. Einar, að lokum: Tókstu með þér einhvern minjagrip úr Hvíta húsinu? Já. Servíettur. (hér hlær Einar dátt) Í fyrra sá ég í sjónvarpinu frá servíettusafni norður í Eyjafjarðarsveit. Kom fram í máli safnstjórans, sem Vaka heitir, að hún mæltist til þess við mann sinn að hann þurrki sér í ermina frekar en að nota servíettu til verksins, að því gefnu að hún ætti ekki umrædda serviettu í safninu. Nema hvað, þar sem ég sat til borðs í Hvíta húsinu þá datt mér þessi ágæta kona í hug. Vænti ég þess að hún muni geyma servíettuna fyrir mig um aldur og ævi. H.J.

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.