Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 18

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 18
Hiv-smitaða stelpan REYNSLUSAGA Ég var beðin um að skrifa grein fyrir Rauða borðann og þótti það vera mikill heiður. Ég vissi ekki strax hvað ég vildi skrifa um en ákvað að skrifa stuttlega um reynslu mína. Ég geri það nafnlaust en ekki vegna þess að ég skammist mín fyrir að vera hiv-jákvæð, heldur vegna þess um hve persónulega reynslusögu er að ræða. Ég smitaðist af hiv-veirunni árið 1998, þá aðeins 18 ára gömul. Það fylgdi þessu mikil skömm og ég ætlaði ekki að fá mig til þess að segja fjölskyldu minni frá. Það liðu tæp 2 ár þar til ég gat sagt fjölskyldunni fréttirnar. Eftir að hafa tekið staðfasta ákvörðun um að segja þeim frá, gekk ég um gólf á heimilinu í u.þ.b. 3 klukkutíma áður en ég gat komið þessu út úr mér – mér fannst ég alltaf ætla að kafna á orðunum „Ég er hiv- smituð“. Þetta var það erfiðasta sem ég hef þurft að segja mínum nánustu. Að segja frá var erfitt vegna þess að ég vildi ekki leggja þessa byrði á fjölskylduna, ég vildi ekki dreifa úr skömminni, láta hana flæða yfir á hina. Það var mikill léttir þegar mér tókst að segja frá, það var fyrsta skrefið í áttina að frelsi frá skömminni. Mér fannst ég eiga skilið að hafa smitast, að ég hefði verið kærulaus og heimsk. Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar. Ég veit nú að ég er ekki kærulaus og ég er ekki heimsk. Ég var lengi að sætta mig við hiv- greininguna. Ég tengdi hana við óheilbrigt samband sem ég var í á þessum upphafsárum lífs míns og gat verið endalaust sár; sár yfir því að hafa „lent“ í þessu, sár yfir því að vita aldrei neitt; hvenær væri gott að byrja á lyfjum?, hvaða lyfjum?, hvað myndi ég lifa lengi?, hvernig áhrif hefðu lyfin á líf mitt og líkama? Ég vissi að þetta væri ekki lengur dauðadómur en mér leið eins og þetta væri félagslegur dauðadómur, fannst ég vera aðhlátursefni, efni í kjaftasögur, fannst ég vera viðmið í samfélagi ungs fólks sem gæti alltaf litið á mig og hugsað „ég er alla vega ekki hún”. Það er varla hægt að líta á sig sem minni manneskju en það. Á þessum árum var ekki mjög mikið vitað um hiv, fólk vissi að það mætti drekka úr sama glasi og ég – en það vissi ekki að ég gæti lifað lengi, fólk vissi að það mætti setjast á sama klósett og ég – en vissi ekki að ég gæti eignast börn, fólk vissi að það væri óhætt að kyssa mig – en fáum kom til hugar að gera það. Mér fannst ég útskúfuð þrátt fyrir að ég ætti góða vini sem stóðu með mér. Og mér fannst ég bara vera „hiv- smitaða stelpan“. Nú veit ég að ég er ekki hiv-smitaða stelpan, ég er í mesta lagi hiv-jákvæða stelpan.

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.