Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 25

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2012, Blaðsíða 25
25 Á meðan Þorsteinn var í óreglu kom það ósjaldan fyrir að hann gisti fangageymslur lögreglunnar fyrir smáhnupl og minniháttar brot. S: Það var eitt sinn er hann sat inni í mánuð fyrir minniháttar brot að við systurnar fengum fyrir hann leyfi. Þannig vildi nefnilega til að hann varð fertugur og okkur langaði svo að bjóða honum út að borða. Þetta leyfi var góðfúslega veitt, enda var Þorsteinn enginn alvöru glæpon, en fangavörðunum á Hverfisgötunni fannst hann illa til reika. Það varð úr að þeir gáfu honum skyrtu og peysu í tilefni dagsins. Við ætluðum með Þorstein í Perluna og síðan á veitingahús. Honum fannst ágætt að skoða Perluna en óskaði svo eftir því að fá að borða heima, ekta sunnudagsmat – lambalæri með brúnuðum kartöflum, rauðkáli, sultu og brúnni sósu. Klukkan var orðin margt svo við pöntuðum á endanum gamaldags steikt læri með tilheyrandi frá veitingastaðnum Laugaási, og borðuðum heima hjá mér. Þetta var svo notaleg stund. Fyrir einhvern í hans stöðu var þetta kannski það dýrmætasta sem við gátum gefið honum. J: Þorsteinn var mikill húmoristi og gat verið fljótur til svars. Einu sinni sem oftar þurfti hann að fara upp á slysadeild út af einhverju hnjaski sem hann varð fyrir. Þar tók á móti honum bandarískur gestalæknir sem tók í hendina á honum og kynnti sig formlega. Þorsteinn svarar: Sæll, ég heiti Þorsteinn Karl Eyland og ég er alnæmissmitaður róni frá Íslandi! Eins og annað útigangsfólk þá var Þorsteinn oft peningalítill. Stundum hringdi hann til að biðja um pening og þá var viðkvæðið: mig vantar pening fyrir mjólk! Stundum færðum við honum kökur og tertur eða páskaegg um páskana og bollur á bolludaginn. Þá gat hann slegið um sig og boðið drykkjufélögunum upp á góðar veitingar. Undir lokin var hann farinn að hringja í bakaríið til að koma á framfæri sérþörfum félaga sinna. Einn vildi alls ekki bleikt krem á kökuna sína meðan annar vildi ekki sultu í rjómabolluna og þar fram eftir götunum. Þegar Þorsteinn var sem veikastur af sjúkdómnum og alkóhólismanum var oft lítið um úrræði og tilfinning systranna var sú að hann passaði hvergi inn. S: Þorsteinn lenti utan kerfis vegna veikindanna og vegna neyslunnar. Við hlupum á milli Landlæknisembættisins, félagsmálayfirvalda og Heilbrigðisráðuneytis en það voru engin úrræði í boði fyrir menn í hans stöðu. Haraldur Briem, sem þá starfaði sem smitsjúkdómalæknir, tók okkur þó alltaf vel og ítrekaði að hann væri velkominn á smitsjúkdómadeildina. En það er ekki auðvelt að fá fólk sem er áfengissjúkt til að staldra við neins staðar. Það var heldur ekki auðvelt að fá þjónustu fyrir Þorstein, eitt sinn var hann veikur og hringdi sjálfur á sjúkrabíl en þeir neituðu að flytja hann, hver svo sem ástæðan var. Síðustu 5 vikur ævinnar dvaldi Þorsteinn Karl Eyland á líknardeildinni í Kópavogi þar sem hann lést af völdum alnæmis 11. október 1999. J: Þorsteinn hefði í rauninni átt að fá aðstoð strax eftir Kumbaravog. Þar varð hann fyrir óbætanlegu tjóni á sál og líkama. Ég efast um að það hefði breytt neinu um örlög bróður okkar þótt sannleikurinn hefði komi fram í dagsljósið á meðan hann var enn á lífi. Það er einfaldlega ekki hægt að bæta upp glataða æsku. Þorsteinn fékk ekki það veganesti út í lífið sem öll börn eiga rétt á. Við systurnar erum mjög þakklátar fyrir hversu vel var hlúð að honum á líknardeildinni í Kópavogi. Þar naut hann þeirrar virðingar sem honum bar sem manneskja og fékk góða aðhlynningu og friðsælt andlát. Við erum líka þakklátar Hiv- Íslandi fyrir stuðninginn gegnum árin og við viljum gjarnan halda tryggð við þessi samtök. Samtökin Hiv-Ísland þakka systrunum Svövu og Jennýju sömuleiðis fyrir frábæran stuðning gegnum árin og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. H.J. og E.Þ.J.

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.