Víðförli - 15.04.1990, Blaðsíða 7

Víðförli - 15.04.1990, Blaðsíða 7
Orð eru næg, nú vantar aðgerðir Allt er í heiminum hverfult segir máltækið og svo er sannarlega með hjónabandið. Það er ekki alltaf varanlegt og óhagganlegt. Tíðir hjónaskilnaðir hér sem annars staðar staðfesta að svo sé. Hvað er til ráða? Er ekkert unnt að gera til að sporna við eða er okkur öllum kannski sama? Nýlega var ég á fundi hjá Félagi fráskilinna, sem eru samtök sem stofnuð voru nú í haust. Félagsmenn spurðu mig, prestinn, hvort kirkjan ætlaði ekki að gera eitthvað annað en sinna skilnaðarmálum og gifta fólk yfirleitt án mjög lítils undirbún- ings. Þeir höfðu miklar áhyggjur og sáu þá lausn helsta að vanda undir- búninginn eins vel og kostur væri, a.m.k. hlyti það að vera þess virði að reyna markvissa fræðslu áður en til hjúskapar kemur sem svar við óh- amingjusömum hjónaböndum og vaxandi skilnaðartíðni. Það hefur verið sýnt fram á það vísindalega að unnt er með góðum undirbúningi að draga úr þessum líkum. Og samfara frumfræðslunni er nauðsynlegt að halda við þekking- unni t.d. með samfélagi hjóna, eða hjónahópa. í Bandaríkunum hefur verið reynt ýmis konar fræðsluefni einmitt fyrir hjónaefni, ung hjón og unga for- eldra. Ef hjónaefni eða ung hjón fá tiltekna undirbúningsfræðslu, sem spannar helstu innviði hjónabands- ins, má benda þeim á áhættusvæðin, þau mál eða viðfangsefni sem betur þyrfti að skoða og e.t.v. leita sér- fræðiaðstoðar við. Kannanir hafa ítrekað sýnt með talsvert miklum lík- um (80%) að hjón sem leita skilnað- ar, slíta sambúðinni af sömu ástæðum og reyndust hafa verið þeirra höfuð vandamál í undirbún- ingsfræðslunni. Og það má líka sýna fram á með sterkum rökum hvaða hjón telja sig eftir nokkur ár vera í óhamingjusömu hjónabandi af sömu ástæðum og fyrr er getið. Þetta sýnir m.a. að það er unnt að sporna við fótum varðandi skilnað- ina og gera eitthvað raunhæft í hjónafræðslu til að efla og styrkja hjónabandið. Það er sorglegt til þess að vita að við sóknarprestar höfum ekki tekið á þessum málum af al- vöru, en býsnumst samt allir yfir þeim mörgu og erfiðu hjónaskilnað- arviðtölum sem við fáum og okkur ber skylda til að annast. Okkur stendur til boða að nýta okkur einn- ig þetta bandaríska fræðsluefni eða búa sjálf til okkar eigið efni. Það er að mínu áliti alveg ljóst að hér verðum við að snúa við blaðinu og hefjast handa nú þegar. Ung hjón sem eru að stíga sín fyrstu spor, verða að fá miklu meiri stuðning en nú er. Nógu hál er samt sú braut sem bíður þeirra. Látum ekki okkar eftir liggja og sláum skjaldborg utan um þetta mikilvæga samband einstakl- inga. Kirkjan ber ábyrgð á ungum hjónum og á varðveislu hjónaband- ins, og hefur að mörgu leyti þar lykil- aðstöðu. Nú er tími til kominn að hætta að ræða málin og fara að gera eitthvað til bjargar. Þorvaldur Karl Helgason, sóknarprestur í Njarðvík. VÍÐFÖRLI — 7

x

Víðförli

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víðförli
https://timarit.is/publication/1508

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.