Fjarðarfréttir - 01.03.1985, Blaðsíða 6

Fjarðarfréttir - 01.03.1985, Blaðsíða 6
6 FJARÐARFRETTIR „Hér er prýðilegt að vera" Litið inn á Sólvang og rætt við Elísabeti Erlendsdóttur, Margréti Magnúsdóttur og Jón Helgason ■ Jón Helgason og Halla Eyjólfsdóttir Það var eftirmiðdag einn fyrir nokkru að við knúðum dyra á Sól- vangi. Eftir að hafa hitt að máli þau Svein Guðbjartsson forstjóra Sól- vangs og Þuríði Ingimundardóttur yfirhjúkrunarfræðing áttum við stutt spjall við þrjá vistmenn sem dvelja á Sólvangi. Fyrst var rætt við Elísabetu Erlendsdóttur, sem mjög margir Hafnfirðingar þekkja, því hún starfaði sem eina skóla- hjúkrunarkona bæjarins um fjölda ára. Elísabet tók okkur Ijúfmann- lega, 85 ára gömul hress og kát. „Ég er fædd að Arnarbæli í Grímsnesi en kom til Hafnarfjarð- ar 1940. Ég tók þá þegar til starfa sem skólahjúkrunarkona og á sumrin var ég við bæjarhjúkrun. Árið 1970 hætti ég síðan sem skóla- hjúkrunarkona. Ég átti lengst af heima að Austurgötu 47 en eftir að ég hætti störfum var ég í Sólvangs- húsunum svokölluðu. Þar er mjög gott að vera. Nú er ég alkomin hingað á Sólvang og hér er einnig prýðilegt að vera. Það er auðvitað alls staðar hægt að finna að en ég get ekki ímyndað mér að betur sé hægt að gera fyrir fólkið. Ég hef t.d. oft dáðst að þolinmæði þess unga fólks sem hér vinnur og hve það leggur sig mikið fram við að gera vistfólki til hæfis. Ég er við ágæta heilsu og það er aðeins leti sem mest hrjáir mig. Ég les mikið, fer í gönguferðir og hef sem sagt ekki yfir neinu að kvarta. Jú, ég á margar góðar minningar úr starfi minu sem skólahjúkrunar- kona en ég fer ekkert að ræða um þær hér. Ég starfaði með einum 5 læknum, þeim Þórði Edilonssyni, Bjarna Snæbjörnssyni, Kristjáni Arinbjarnar, Grími Jónssyni og Eiríki Björnssyni, sem ég starfaði lengst með. Allt prýðisgóðir læknar. Hér líður mér sem sagt mjög vel. Hér er nóg af bókum og ég get með góðu móti lesið og haft margt fyrir stafniý segir Elísabet Erlendsdóttir fyrrum skólahjúkrunarkona að lokum. Margrét Magnúsdóttir er fædd á Strönd í Meðallandi, Vestur- Skaftafellssýslu árið 1900. Hún bjó lengi að Maríubakka í Fljótshverfi, V-Skaftafellssýslu, en kom á Sól- vang 1970. „Jú, vissulega voru það nokkur viðbrigði í fyrstu að flytja úr sveit- inni minni en maður finnur þörf fyrir að vera í góðra manna höndum þegar heilsan fer að bila. Ég hafði þurft að vera á sjúkrahúsi í all langan tíma áður en ég kom hingað, en hér hef ég fengið mikinn bata. Starfsfólkið er með afbrigð- um gott og aldrei finnur maður annað en hlýju og umhyggju. Haft er ofan af fyrir þeim sem það vilja með handavinnu og hér koma stundum ýmsir með einhver skemmtiatriði. Presturinn, sr. Gunnþór, kemur einu sinni í mán- uði. Hingað kemur margt fólk í heimsókn til vistfólks, en það er auðvitað misjafnt. Þegar fólk er búið að vera hér lengi dregur stund- um úr heimsóknum eins og eðlilegt er. Hér er vistfólk héðan og þaðan af landinu og skyldfólk oft fjarri og erfitt um heimsóknir. En það keppast allir við að láta okkur líða sem best og svo sannarlega ekki yfir neinu að kvarta“ Jón Helgason er flestum eldri Hafnfirðingum að góðu kunnur. Halla Eyjólfsdóttir, kona hans var í heimsókn hjá honum og sátu þau hjón að spilum þegar okkur bar að. „Við Halla mín höfðum verið hér frá 1983. Við kunnum vel við okkur hér, þó alltaf sé nú best að vera heima. En þegar heilsan fer að bila þá gengur það ekki. Ég verð nú 90 ára í sumar og Halla mín er orðin 91 árs. Jú, ég fæst við kveðskapinn enn og kasta fram vísu við ýmis tilefni. Við syngjum oft hérna og það er glatt á hjalla. Viljið þið heyra dálít- inn brag sem ég flutti á skemmtun hér fyrir nokkru: A Sólvangi er fljóðafans fær í góðum störfum. Allan daginn aldrei stans okkar sinna þörfum. Herma skal það hreint og beint þó hrumur sé og lotinn í þeim er ég öllum hreint ákaflega skotinn. Við spilum oft hjónin og svo les ég smæsta letur gleraugnalaust. Ég fer stundum út en ég er nú alveg hættur að hjóla. En ég reyni að fara í gönguferðir þegar gott er veður. Já, þau eru orðin mörg árin sem við Halla mín höfum verið saman og ég man varla til þess að okkur hafi orðið sundurorða“ Við kveðjum þau hjón og um leið og við förum út um dyrnar þá heyrum við að Jón segir: „Þú vannst rétt einu sinni, Halla mín" og á eftir fylgdi auðvitað vísa. Það þykir sjálfsagt mörgum fengur í því að sonur þeirra hjóna, Magnús Jónsson, forstöðumaður byggða- safnsins, er að vinna að útgáfu bókar með Ijóðum Jóns, gömlum og nýjum. Er bókin væntanleg næsta haust og ekki að efa að hún verður mörgum kærkomin, svo oft sem tækifærisvísur Jóns Helga- sonar hafa glatt marga um dagana.

x

Fjarðarfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fjarðarfréttir
https://timarit.is/publication/1526

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.