Fjarðarfréttir - 01.03.1985, Blaðsíða 34

Fjarðarfréttir - 01.03.1985, Blaðsíða 34
34 FJARÐARFRETTIR Níels Árnason, bíóstjóri: „Myndir Bergmans voru mjög umdeildar" Hafnarfjarðarbíó hefur nú verið starfrækt í rösk 70 ár en það var árið 1914, sem Árni Þorsteinsson hóf rekstur kvikmyndahúss með þessu nafni vestur á Kirkjuvegi. Að vísu nefndu Hafnfirðingar bíóið sjaldnast sínu rétta nafni, heldur kölluðu það Árnabíó, og sumir gera það víst enn í dag. Þegar starfsemi Hafnarfjarðarbíós hófst var hvergi á landinu rekið kvik- myndahús utan Reykjavíkur, en þar voru Gamlabíó og Nýjabíó nýtekin til starfa. Árni rak Hafnarfjarðarbió vestur á Kirkjuvegi til ársins 1943, en það ár rættist langþráður draumur hans um nýtt húsnæði og 19. desember það ár flutti bíóið að Strandgötu 30 í nýtt og veglegt hús. í þessu húsi hefur Hafnarfjarðarbíó verið rekið síðan, fyrst af Árna, þar til hann féll frá árið 1956, en síðan af syni hans, Níelsi. Okkur þótti því sennilegt að Níels Árnason bíóstjóri hefði frá ýmsu að segja og fengum hann til að sitja fyrir svörum hjá blaðamönnum Fjarðar- frétta. Margan fallegan gripinn er að sjá á heimili Níelsar. Klukkuna keypti Ólafur Davíðsson, skipstjóri, fyrir Árna, föður Níelsar. Við sækjum Níels heim í íbúð bíóstjórans á efstu hæðinni að Strandgötu 30. Þar endurspeglar andrúmsloftið snyrtimennsku hús- ráðandans og róandi nálægð lista- verkanna á veggjunum og gömlu húsgagnanna í stofunni. Níels býð- ur okkur sæti og ber okkur gos- drykki í stórum glösum til að væta kverkarnar. Síðan hefjum við spjallið, ótruflaðir af öðru en dásamlegu útsýni sem blasir við út yfir fjörðinn og nokkrum dúfum sem af og til „guða á gluggann“. Þær eru fastagestir Níelsar, hann fóðrar þær reglulega, en sumar eru dálítið frekar og biðja um aukabita milli mála. En það er ekki hollt dúfum fremur en mannfólkinu og Níels hleypur ekki eftir slíkum kröfum, vill halda reglu á hlutun- um. í þessu spjalli okkar ber starf- semi biósins fyrst og fremst á góma, en þar hefur Níels starfað samfellt frá barnsaldri, fyrst sem aðstoðar- maður föður síns, en síðan sem hæstráðandi. En gefum Níelsi orðið: „BÍÓEIGENDUR L REYKJAVÍK LITU OKKUR HORNAUGA" Rekstur Hafnarfjarðárbíós var nokkuð erfiður þegar ég var að alast upp, enda krepputímar og auraráð alls þorra fólks í lágmarki. En á stríðsárunum rættist verulega úr. Ég man eftir því að Bretarnir fylltu húsið kvöld eftir kvöld fyrst eftir að þeir komu, auk þess sem fjárhagur landans fór þá fljótlega að vænkast og fleiri fóru að hafa ráð á að veita sér einhverjar skemmtanir. Árið eftir að við fluttum á Strandgötuna í nýja húsið tók svo Bæjarbíó til starfa. Þá hófst sam- keppni hér innan bæjar, sem ekki hafði verið til staðar áður. Þá voru 3 kvikmyndahús rekin í Reykjavík, og milli okkar allra ríkti viss sam- keppni og allir kappkostuðu að ná í góðar myndir til sýningar. Bíóin í Hafnarfirði stóðu sig vel í þessari samkeppni, svo vel að bíóeigendur í Reykjavík litu okkur hornauga. Þeim fannst víst Reykvíkingar sækja hafnfirsku bíóin fullstíft, en gleymdu því að Hafnfirðingar sóttu þeirra kvikmyndahús ekki síður en sín eigin. Á þessu tímabili gekk vel og við höfðum mikið að gera. Við Kristinn bróðir minn, sem lengi var sýningarmaður hér, vorum að- stoðarmenn pabba frá æskuárum og tókum svo við rekstrinum þegar hann féll frá. FRUMSÝNDI Á ÍSLANDI 16 AF MYNDUM BERGMANS. Nú berst talið að frægum kvik- myndum sem Hafnarfjarðarbíó sýndu á þessum árum. Fluttuð þið þessar kvikmyndir inn sjálfir? Já, í þá daga voru fjölmargar myndir frá ýmsum löndum sýndar í Hafnarfirði í fyrsta sinn hér á landi, og við fluttum þær yfirleitt inn sjálfir. Pabbi hafði á sínum tíma gert samning við Nordisk film og flutt inn nokkrar myndir frá þeim og þennan samning endurnýjaði ég þegar ég tók við stjórninni. Auk þess náði ég samningum við fleiri kvikmyndagerðarfyrirtæki á Norð- urlöndum og víðar í Evrópu. Á hverju ári fór ég út, skoðaði myndir og gerði samninga um þær sem ég ákvað að taka á Ieigu. Meðal þess- ara mynda voru 16 af myndum meistarans Ingmars Bergmanns. Þær vöktu mikla athygli, enda voru þær flestar tímamótaverk, en voru misjafnlega vel sóttar. Stór hópur fólks kunni þó vel að meta myndir Bergmans og margar þeirra gengu vel þótt þær væru vægast sagt mjög umdeildar, enda alldjarfar á þeirra tíma mælikvarða. Stundum urðu þær orsök blaðaskrifa og deilna. M.a. var mér sent harðort hótunar- bréf þegar við sýndum „Jomfrur- kilden“. í henni, eins og flestum myndum Bergmans, sá fólk annað hvort ódauðlegt listaverk eða ómerkilega lýsingu á lægstu hvöt- um mannsins. „KARLSEN STÝRIMAÐUR“ GEKK í HÁLFT ÁR. Dönsku gamanmyndirnar sem við fluttum inn, nutu hins vegar almennrar hylli og árum saman var einhver þeirra jólamynd bíósins. Þær voru allar mjög vel sóttar þó engin eins og „Karlsen stýrimaður“ sem sýnd var stanslaust frá jólum og til 6. júní vorið eftir, oftast fyrir fullu húsi. Vinsældir þessara mynda byggðust fyrst og fremst á hæfileikum dönsku gamanleikar- anna, sem voru óborganlegir á þess- um árum. Vinsælastur var að sjálf- sögðu Dirch Passer. Ég var eitt sinn svo lánsamur að vera boðið í kvik- myndaver í Danmörku þar sem verið var að taka upp „Frænku Charleys“. Þá var ég m.a. þess heið- urs aðnjótandi að drekka te með Passer heitnúm og mér er minnis- stætt að tebollinn hvarf hreinlega í hendi þessa stórvaxna listamanns. Hann var ekki farinn að þamba ölið ómælt í þá daga. MARCELINO „MARCELLINO“ FALLEGASTA MYND SEM ÉG HEF SÉГ Við fengum myndir víðar að úr Evrópu m.a. nokkrar spánskar. Sú eftirminnilegasta er vafalaust „Marcellino“, fallegasta mynd sem ég hef séð, og ein af fáum kvik- myndum sem mig langaði til að eignast. Sagan um drenginn Marcellino, sem ólst upp með munkum og upplifði kraftaverk sem lærifeður hans höfðu svo lengi vonast eftir, er einstaklega hugljúf og hafði djúp áhrif á alla þá sem sáu myndina. Mér eru einkar minnistæð viðbrögð kaþólsku systranna, sem ég bauð á myndina, hrifning þeirra var svo einlæg. Allt þetta tímabil var ákaflega skemmtilegt og eftirminnileg lífs- reynsla.

x

Fjarðarfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fjarðarfréttir
https://timarit.is/publication/1526

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.