Börn og menning - 2015, Blaðsíða 7

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 7
7Maðurinn sem óttaðist börn limlestir í Reykjavík, á öllum morðstöðunum er smábarnabók um asnalegan hund. Það sjá allir að raðmorðingi er á ferð og slúðurblöðin keppast um að fóðra fólk á ótta og hryllingi og segja að Reykjavík sé orðin „borg óttans“. Þegar skuggalegur maður gerist leigjandi að herbergi systurinnar óttast Sylvek að hér sé kominn drengjamorðinginn. Maðurinn er það ekki en hann er höfundur bókarinnar um asnalega hundinn. Hann og Sylvek ákveða að upplýsa morðin og finna týndu systurina. Leitin leiðir þá gegnum hryllilega undirheima Reykjavíkurborgar. Markhópur Bókin Maðurinn sem hataði börn er ætluð aldurshópnum tólf ára og eldri og myndi flokkast undir svokallaðar „ungmennabókmenntir“.3 Flestir táningar elska hryllingssögur og það hefur verið nýtt til hins ítrasta í fjöldamenningunni með því að lauma hryllingnum inn í nánast allar bókmenntagreinar ætlaðar unglingum - glæpasögur og hrollvekjur, vísindaskáldsögur og ástarsögur, oft með smávegis kynlífi líka. Þetta er formúlan á bak við hinar sívinsælu vampíruseríur og bækur og myndir um flókna helgisiðabundna leika þar sem ungmenni eru pínd og drepin en þetta er skemmtiefni sem fólk á öllum aldri er stórhrifið af. Hrollvekjur hafa breyst mjög frá sígildum sögum eins og Frankenstein eftir Mary Shelley eða Drakúla eftir Bram Stoker. Kastalinn, rústirnar og draugahúsið eru ekki lengur skyldubústaðir og vettvangur uggs og ótta. Það er helst að þessi ljótu hús komi fyrir í skopstælingum og grínhryllingi. Það er hinn óstýriláti líkami ungmennisins sem hefur tekið við hlutverki þess að vera bústaður ótta og skelfingar. Ungir og fallegir líkamar eru bundnir og pyntaðir í sjónvarpsþáttum og bíómyndum og stundum ummyndast persónurnar yfir í skrímsli, uppvakninga, vampírur eða hefnendur sem engu eira.4 Þroskasaga Bók Þórarins Leifssonar Maðurinn sem hataði börn nálgast þetta óttalega efni frá sjónarhorni sem hæfir börnum, hann gerir grín að því og afbyggir það. Sylvek er fínn strákur og elskulegur en hann er einmana, hefur sterkt ímyndunarafl og ofsóknarhugmyndir. Hann er mjög hræddur við manninn sem hataði börn en fljótlega verða þeir kunningjar og síðan vinir. Sylvek uppgötvar að maðurinn er enn hræddari við heiminn en hann sjálfur. Sérstaklega við börn af því að þau eru svo miskunnarlaus. Sylvek verður að taka stjórnina í rannsókn þeirra á drengjamorðunum. Hann valdeflist og þorir allt í einu að tala íslensku og fær þar með nýjan aðgang að samfélaginu. Hefði ekki verið hægt að segja þessa þroskasögu án þess að myrða þrjú börn og strá líkamshlutunum yfir kjörbúðir og skólalóðir? Hræðir svona bók ekki börnin? Tilfellið er að tólf ára börn hafa áreiðanlega séð það svartara í tölvuleikjum eða bíómyndum, ein eða með félögum sínum. Við höfum dæmi um það. Eitthvað illt á leiðinni er Allt of fáir vita af útkomu bókarinnar Eitthvað illt á leiðinni er.5 Hún er skrifuð af 19 börnum, 8–9 ára gömlum en þau höfðu verið í sumarskóla og tekið ritlistarnámskeið Markúsar Más Efraím. Gerður Kristný ritar formála bókarinnar en hún heimsótti hópinn og hafði mikil áhrif á hann. Ritunarnámskeið af þessu tagi eða ritunarskólar hafa verið reknir með góðum árangri erlendis, t.d. á hinum Norðurlöndunum og eru mjög áhugaverð fyrirbæri. Textar barnanna í bókinni Eitthvað illt á leiðinni er eru stuttir, flestir eru innan við eina blaðsíðu og þeir bestu eru mjög áhugaverðir. Þema safnsins er hið ógurlega, hið hrollvekjandi, og flestar sagnanna eru verulega óhugnanlegar. Í mjög mörgum þeirra kemur draugahúsið eða hið andsetna hús við sögu en það er breytilegt þema eins og fram er komið því hið illa getur læðst að söguhetjunni hvar sem er. Börnin geta verið á heimilinu eða í þekktum kringumstæðum, í skólanum, hjá vinum og meira að segja á ritlistarnámskeiðinu þegar einhvers konar framandgerving á sér stað og verustaður þeirra ummyndast í draugahús. Það byrjar venjulega með óhugnanlegum hljóðum sem enginn á von á, það er barið að dyrum, dyrabjöllu hringt eða umgangur heyrist þar sem hans var engin von. Dauðaþögn getur verið enn hræðilegri. Stundum eru hinir ungu höfundar ef til vill ekki meðvitaðir um það hvar texti þeirra þéttist og miðlar ótta, reiði eða sektarkennd persóna yfir að hafa ekki tekið eða viljað taka ábyrgð sem fjölskyldan vísar til þeirra. Söguhetjurnar vilja vera börn áfram en eru um leið byrjuð að losa sig undan tilfinningalegu valdi foreldranna án þess að vilja missa þau og þau eru jafnvel full af ótta við að vera yfirgefin eða einangruð af foreldrum og vinum. Sumar söguhetjurnar glíma líka við dekkri hliðar sjálfsins, reiði og árásargirni. Ein sagan segir frá afbrýðisömum dreng sem finnst óþolandi að bróðir hans fái alltaf stærri og flottari jólagjafir en hann sjálfur. Hann fer úr jólaveislunni í fýlu en þegar hann snýr aftur eru allir horfnir. Margar stórar jólagjafir fylla stofuna, allar merktar honum og eitthvað rautt flýtur á gólfinu ... Þessar sögur eftir 8-9 ára gömul börn greina sig frá ungmennabókum eins og Manninum sem hataði börn í því að þær eru ekki íronískar eða í gríni og þær hafa ekki gagnrýna fjarlægð eldri höfundar. Markús Már Efraím sýnir hinum ungu höfundum mikla virðingu í því að bókin er myndskreytt af efnilegum ungum myndlistarmönnum, ein mynd við hverja sögu, og bókin er vönduð þó að letrið sé full smátt og lituðu blaðsíðurnar of dökkar. Börnum sem voru álitsgjafar mínir fannst hún svolítið óhugnanleg á köflum en mjög skemmtileg. 3 Ungmennabókmenntir er þýðing á „Young adult“ bókmenntum, það hugtak hefur verið skilgreint ýmislega en oftast vísar það til bóka sem ekki eru aðeins lesnar af unglingum heldur eldra fólki líka. Í gamla daga lásu börn fullorðinsbækur en ekki öfugt, nú hefur þetta snúist við. 4 The Gothic in Children’s Literature: Haunting the Borders. 2008. Karen Coats og Roderick McGillis (ritstj.). New York: Routledge. 5 Eitthvað illt á leiðinni er. 2015. Markús Már Efraím (ritstj.). Reykjavík: Turninn.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.