Börn og menning - 2015, Blaðsíða 8

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 8
Börn og menning8 Húmor Hvað finnst börnunum fyndið? Víst er að það er ekki hið sama og þeim fullorðnu finnst fyndið. Flest börn eru mjög hrifin af ærslaleikjum, aulabröndurum, ógeðslegum bröndurum og prumpubröndurum en eru kannski ekki að flagga þeim framan í fullorðna áheyrendur. Í Manninum sem hataði börn er fullt af slíkum bröndurum og dæmi um þá eru lýsingarnar á steratröllunum í líkamsræktinni sem eru orðnir svo miklir um sig að upphandleggir þeirra eru sverir eins og læri á venjulegu fólki. Tröllin geta ekki lagt handleggina niður með síðum heldur standa þeir út í loftið og virðast styttri fyrir vikið, höfuðið verður of lítið miðað við líkamann og andlitin eru eins og á grísum. Þessir vaxtaræktarmenn eru orðnir eins og hálfgerðir blendingar af mönnum og tröllum. Þar sem maturinn fer beint gegnum þessi steratröll verða þeir að hafa innbyggð klósett í bílsætum sínum með tilheyrandi óþef. Nákvæmar lýsingarnar eru ógeðslegar og gróteskar, líkaminn er pumpaður upp með sterum og alls ekki lýst eins og fullkomnasta formi hins mótaða mannslíkama heldur gróteskum og afmennskuðum, á mörkum manns og dýrs. Þessi manngerðu tröll eyða mestum hluta tíma síns í ræktinni, óhugnanlegu völundarhúsi undir stærstu verslunarmiðstöð borgarinnar, með löngum og snúnum göngum og til að komast þangað í leit að Æsu verða Sylvek og vinir hans að keyra gegnum vegg í kjallaranum eins og Harry Potter og vinir hans á leið til Hogwarts. Sylvek er dauðhræddur við steratröllin en Julie Cross leiðir rök að því að óttinn geti verið nauðsynlegur til að kalla fram bældar tilfinningar. Það er hægt að sýna húmor í barnabókum í persónum, aðstæðum eða orðræðu. Fyndnin getur verið til skemmtunar eingöngu eða notuð til að framkalla hreinsandi hlátur eftir að texinn hefur „fjallað um dýpsta og bældasta ótta barnsins, óttann við aðskilnað, við að vera yfirgefinn, einmanleika og dauða. Húmor leysir þá úr læðingi tilfinningar sem hlaðist hafa upp og taugaveiklaða orku sem hægt er að veita útrás í hlátri svo að áhrifin verði jákvæð.“6 Ungum börnum finnst gaman að leika sér að orðum, hljómfalli og gaman að því að kyrja þulur og leika sér að hljómum og eigindum málsins en eldri börn vilja þróaðri orðaleiki, gátur og brandara. Unglingar vilja skopstælingar og vísanir í reynsluheim sinn en barnamenning, bækur, kvikmyndir og ævintýri eru hluti af honum. Þeir eru líka miklir aðdáendur ógeðslegra uppátækja sem þeim finnast fyndin. Kerry Mallan segir að þetta sé oft tjáning á löngun þeirra til að rífa sig lausa frá bernskunni um leið og þeir vilji ekki lúta kröfum fullorðinna um að „hætta að haga sér eins og krakkar og laga sig að velsæmisreglum fullorðinna.“7 Köttur úti í mýri Húmor er mikið notaður í Manninum sem hataði börn til að skemmta unglingunum og láta þá sjá fyndnari og bjartari hliðar lífsins því það rekur skuggana burtu. Og svo endar bókin vel. Raðmorðinginn var aldrei til, drengjamorðin og líkamshlutarnir voru í plati, þeir voru úr gúmmíi og maðurinn – eða öllu heldur kötturinn – á bak við þetta allt saman reynist vera útgefandinn að smábarnabókinni um asnalega hundinn sem fannst á vettvangi „glæpanna“, hinn sviðsetti hryllingur var frumleg auglýsingaherferð til að ná upp fallandi sölutölum. Og steratröllin eru trúlega tekin föst í sögulok. Þau höfðu tekið Æsu, systur Sylveks, og haft í haldi og látið hana og aðrar fangnar innflytjendastúlkur skúra líkamsræktarstöðina. Það er ljóst fullorðnum lesanda að hún er dópuð og jafnvel er gefið í skyn að þessar innflytjendastúlkur séu kynlífsþrælar steratröllanna. Við vitum að undirheimarnir standa forsjárlausum unglingum alltaf opnir og undanfarið hefur staða flóttamanna og innflytjenda sem þurfa að læra að fóta sig í nýjum samfélögum verið til umræðu í ungmennabókmenntum á Norðurlöndum og víðar. Það er ágætt að börn og unglingar séu meðvituð um hve margir vilja innflytjendum ekkert gott og sitja um þá. En það er líka gefið í skyn að kannski hafi steratröllin aldrei verið til því að amma Sylvek hafði gefið honum og vini hans ljúffenga sveppi í hádegismat. Hún hafði týnt þá sjálf hér og þar, meðal annars á umferðareyjum meðfram aðalgötum borgarinnar og Sylvek hafði liðið eitthvað undarlega það sem eftir var dagsins. Var þetta þá ímyndun frá upphafi til enda? Þegar Sylvek spyr systur sína hvort steratröllin séu til í alvörunni segir hún: Steratröllin eru til bæði hér og á Spáni – þau eru alls staðar.“ Það eru undirtextar í Manninum sem hataði börn sem tala til fullorðinna jafnt og barna en það eru full margir lausir endar í henni og ekki jafn auðvelt að sjá hvað hún vill eins og í hinum bókunum tveimur. Kostir hennar eru þannig um leið gallar, hún er flugeldasýning af fjöri og sköpunargleði, eins og leidd áfram í spuna og frumlegum og fyndnum uppákomum en ef skrifað er fyrir ungmenni eru lesendur jafnframt orðnir þjálfaðri og eiga að geta spurt eftir tilgangi, skýrum forsendum, hvort baksögurnar standist og plottið gangi upp. Höfundur er prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 6 Julie Cross. 2008. ”Frightening and funny”. Í The Gothic in Children’s Literature, Karen Coates (ritstj.), 58 –59, New York: Routledge. 7 Kerry Mallan. 1993. Laugh Lines: Exploring Humour in Children’s Literature. New South Wales: Primary English Teaching Association, 7.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.