Börn og menning - 2015, Qupperneq 9

Börn og menning - 2015, Qupperneq 9
9Fyrirsögn greinar Helga Birgisdóttir Þar sem allir eiga séns Fantasía raunsæju unglingabókarinnar Fantasíur – allra helst þríleikir – um kjarkaða unglinga sem bjarga heiminum og verða ástfangnir í fyrsta sinn hafa verið áberandi síðustu ár eins og bókaflokkarnir um Hungurleikana, Afbrigðin og okkar eigin Freyju saga eftir Sif Sigmarsdóttur bera vitni um.1 Unglingar vilja þó ekki eingöngu lesa um fantasíur og furður heldur vilja þeir líka lesa um það sem gerist hér og nú. Á síðustu árum hefur raunsæja unglingaskáldsagan gengið í endurnýjun lífdaga og höfundar á borð við John Green og Rainbow Rowell njóta gríðarlegra vinsælda bæði meðal unglinga og fullorðinna víða um heim. Hér verður því ekki minnst einu orði á hungurleika, galdraskóla, vampýrubit eða hálfvélvædd skrímsli heldur verður einblínt á nútímann og raunveruleikann - að minnsta kosti raunveruleikann eins og höfundar vinsælla, raunsærra unglingaskáldsagna skrifa um hann og verður einkum staldrað við fyrrnefnda höfunda, Green og Rowell. Raunsæja unglingaskáldsagan tekst á við persónuleg vandamál söguhetja og oft er um að ræða gríðarstór og brýn samfélagsleg málefni sem mikilvægt er að séu rædd á öllum sviðum samfélagsins en áhersla er einnig lögð á ástina. Hér verður kastljósinu beint að þeim vandamálum og áskorunum sem unglingarnir í bókunum standa frammi fyrir og því velt upp hvort þeir eigi nokkurn séns – hvort sem er í hörðum heimi eða þegar ástin er annars vegar. Hvað er eiginlega að? Vandamál fantasíuþríleikjanna eru oft gríðarlega stór – oft dugir ekkert minna en yfirvofandi endalok heimsins og hún er ansi mikil ábyrgðin sem sett er á herðar aðalpersónunnar sem þarf á sama tíma að bjarga heiminum, verða ástfangin og þroskast einhver ósköp. Áskoranirnar sem söguhetjur raunsærra unglingaskáldsagna standa frammi fyrir ná ekki sama skala en eru þó engu síður mikilvægar. Þetta eru persónuleg vandamál söguhetjanna eða einhvers sem er þeim nákomin og þetta eru vandamál sem margir lesendur þekkja, sumir úr eigin lífi, málefni á borð við sjálfsvíg, misnotkun, ofbeldi, dauða, veikindi og einelti svo eitthvað sé nefnt. Bandaríkjamaðurinn John Green er einna vinsælastur þeirra höfunda sem skrifa tilfinningaríkar unglingabækur um samfélagsmein og úrvinnslu unglinga á þeim. Vandamálin sem hann skrifar um eru bæði stór og smá, þótt unglingunum í bókunum finnist að sjálfsögðu ekkert magnþrungnara hafa komið fyrir nokkurn mann, hvorki fyrr né síðar. Í sinni fyrstu bók, Leitinni að Alaska (Looking for Alaska), tekur hann fyrir vandræðaunglinga, þunglyndi og sjálfsmorð. Öllu léttara er yfir næstu bók, Heilum haug af Katrínum (An abundance of Kathrines), þar sem aðalvandamálið er brotin sjálfsmynd aðalpersónunnar sem þarf að læra að vera sátt við sjálfa sig. Will Grayson, Will Grayson fjallar svo um samkynhneigð og það að allir megi – og eigi – að vera nákvæmlega eins og þeir eru og eins og þeim líður best. 1 Þessi grein byggir á samnefndum fyrirlestri sem fluttur var á ráðstefnunni Börn á köldum klaka í Gerðubergi 7. mars 2015. Fyrirlesturinn birtist hér að mestu óbreyttur, einkum hefur orðalagi verið hnikað til hér og þar.

x

Börn og menning

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.