Börn og menning - 2015, Blaðsíða 27

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 27
27Að sækja út en komast ekki nógu langt samferðamanna okkar og ómögulegt sé að dæma hegðun annarra án þess að vita hvað að baki liggur. Smáatriði og að því er virðist léttvægir atburðir taka gjarnan á sig stærri merkingu þegar líður á bókina; sex köflum eftir að drengur æðir í fússi út úr bifreið, að því er virðist upp úr þurru, kemur í ljós að skýringin er óendurgoldin ást og sálarkvalir ungmennis sem er að horfast í augu við eigin kynhneigð. Það sem virðist í fyrsta kaflanum sakleysisleg gönguferð stelpu og stráks sem vilja kela í friði reynist hluti af ögrun og niðurlægingarmynstri gagnvart þriðja aðila sem fær óumflýjanlegan endi í grimmasta kafla bókarinnar. Óvæntar hliðar á gamalkunnu formi Að mörgu leyti er Skrifa í sandinn afar hefðbundin frásögn af unglingum og sver sig í ætt við félagslegar raunsæisbókmenntir ætlaðar þeim aldurshópi, dæmigerðar „vandamálabækur“ þar sem persónurnar verða tákngervingar félagslegra vandamála af ýmsum toga. Persónugalleríið samanstendur af unglingum sem glíma við erfiðleika, vanlíðan er gegnumgangandi stef og lesandinn er fljótur að átta sig á því hvar áherslupunkturinn liggur í hverjum og einum kafla: Átröskun, fyrsta kynlífsreynslan, fíkniefnavandi, samkynhneigð, framhjáhald foreldra, ofbeldis- og áhættuhegðun, og svo framvegis. Vissulega kunnugleg viðfangsefni í unglingabókmenntum og upp að vissu marki fellur höfundurinn í klisjugryfjurnar en þó er ýmislegt sem hífir bókina upp af því plani. Þar leikur formið stórt hlutverk og áðurnefnt stílbragð höfundar að afhjúpa smám saman óvæntari hliðar á að því er virðist hversdagslegum atburðum. þegar best tekst til snýr Marjun upp á væntingar lesandans og bendir þannig á að fyrirframgefnar hugmyndir og fyrstu hughrif standast ekki alltaf. Keðjan sem liggur í stakan atburð er löng og ekki alltaf fyrirsjáanleg. Myndir sem við teljum okkur þekkja hafa gjarnan aðra merkingu þegar dýpra er kafað. Drukkin stúlka sem liggur grátandi í rúmi eftir að hafa farið inn í herbergi með strák reynist ekki hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi heldur hafa samskipti þeirra endað illa af öðrum sökum. Höfundi tekst í flestum köflunum að draga upp mynd af persónum sem eru ekki aðeins hið augljósa og sjálfsagða heldur marghliða manneskjur með flókið og þversagnakennt tilfinningalíf. Sannfærandi og lesvæn þýðing Textinn er knappur og Marjun bregður gjarnan fyrir sig litlum svipmyndum sem teikna þó upp ástandið í stærra samhengi. Þýðandanum Heiðrúnu Hödd Guðmundsdóttur tekst almennt vel upp með þennan knappa stíl og skýru myndir. Þrátt fyrir hinn mikla skyldleika málanna tveggja er uppbygging færeysku og hugsun málsins með allt öðrum hætti og þýðandinn virðist hafa góðan skilning á blæbrigðamun sem og snertiflötum íslensku og færeysku. Heildarsvipur textans er sannfærandi og lesvænn. Stundum mætti málfarið þó vera afslappaðra og hversdagslegra, ekki síst í samtölum, og á nokkrum stöðum er þýðingin helst til of bein, samanber titil bókarinnar sem samræmist ekki vel íslenskri máltilfinningu. Prófarkarlesari hefði einnig mátt huga betur að greinarmerkjasetningu í textanum. Svipmynd af færeyskum samtíma Það er afar áhugavert að fá hingað bók sem lýsir færeyskum samtíma og stöðu ungmenna hjá grannþjóð okkar. Tilfinningalega séð reynist íslenskum ungmennum eflaust auðvelt að tengja við textann enda viðfangsefnin mörg hver sammannleg eða þekkjast í íslenskum samtíma. Unglingsárin eru alls staðar tími uppgötvana og stórra tilfinninga. Við fáum þó einnig dálitla innsýn í það hlutverk sem trúarlífið leikur dagsdaglega í færeysku samfélagi, sem er ef til vill fyrirferðarmesti munurinn á þjóðunum tveimur. Í bókinni kynnumst við meðal annars ungum, trúheitum manni sem sækir mikið í kirkjustarf og hefur raunar stofnað sinn eigin trúarhóp með öðrum ungmennum, um helmingur persónanna sækir samkomu á sunnudeginum þá helgi sem bókin lýsir – ýmist af eigin hvötum, félagslegum þrýstingi eða hreinlega leiðindum því fátt stendur annað til boða – ein stúlknanna hefur leitað í trú á æðri mátt sökum erfiðra heimilisaðstæðna og bjargarleysis gagnvart vinum og fjölskyldu. Bókin er að sjálfsögðu upphaflega skrifuð með heimafólk í huga svo lítið er um lýsingar á staðháttum og umhverfi, en engu að síður öðlast lesandinn ákveðna tilfinningu fyrir sögusviðinu og ekki síst smæðinni, sem setur mikinn svip á textann. Það er ómögulegt að kaupa getnaðarvarnir í laumi ef maður þekkir nánast alla í apótekinu – eins og íslensk ungmenni í litlum sveitarfélögum þekkja eflaust – og á eyju eru rúntinum óhjákvæmilega ákveðin takmörk sett. Bílferð nokkurra af sögupersónunum er mikilvægur hlekkur í sögunni og verður nánast táknræn fyrir stöðu þeirra í lífinu; þau eru ekki börn, ekki fullorðin, enn að vissu leyti föst í mynstri fjölskyldunnar en farin að þrá að skapa sér sitt eigið mynstur. Þau hafa hafnað fortíðinni en ekki fundið framtíðina. Þau sækja út, í burtu frá heimi bernskunnar en komast enn ekki nógu langt. Það er þessi togstreita sem Marjun Syderbø Kjelnæs lýsir hvað best. Höfundur er leikskáld og þýðandi

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.