Börn og menning - 2015, Blaðsíða 34

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 34
Börn og menning34 Í sumar varð félagið okkar, IBBY á Íslandi, þrjátíu ára. Það má segja að starfið sé í nokkrum blóma þessi árin. Við höfum verið lánsöm þegar kemur að styrkveitingum, félagsmenn hafa verið óeigingjarnir á tíma sinn þegar kemur að stjórnarsetu og fjölmörg árleg verkefni eru í föstum skorðum. Þessi verkefni eru fjölbreytt, en eiga sér þó einn samnefnara: Lestrarhvatningu. Það er djúpstæð trú fólksins sem hefur mótað stefnu félagsins að lesskilningur sé eitt mikilvægasta veganestið sem hægt er að gefa barni. Hugsjón alþjóðlegu IBBY- samtakanna um að barnabækur byggi brýr og auki á skilning manna í millum er okkar leiðarljós - en hún verður innantóm nema börn vilji lesa og njóti þess að lesa. Það er því lykilatriði að börn fái sögur við hæfi, að þau hafi aðgang að efni sem kveikir lestrarlöngunina. Lestrartækni er mikilvægt fyrsta skref, en raunveruleg færni næst ekki nema að lestur verði lífsstíll. Þessu vinnum við að með ýmsum hætti. Við veitum viðurkenningar og tilnefnum höfunda til verðlauna, því það skiptir máli að veita fólkinu sem sinnir bókagerð fyrir börn hvatningu. Við stöndum að málþingum og ráðstefnum, af því að ef barnabækurnar eiga að þrífast þarf að tala um þær, greina þær og skoða. Við gefum út þetta tímarit, hið eina sinnar tegundar á íslensku. En við reynum líka að færa börnum sögur. Því sögur eru það sem virkar. Góð saga kveikir forvitnina, með forvitninni kemur þjálfun, en án þjálfunar verður engin hæfni. Þess vegna er dagur barnabókarinnar eitt af flaggskipum félagsins. Þá fáum við barnabókahöfunda til að semja fyrir okkur glænýja sögu sem hægt er að lesa fyrir grunnskólabörn á öllum aldri, öll í einu. Brýrnar, sem bókmenntirnar byggja, verða til þegar lesendur setja sig í spor annarra og þegar lesturinn veitir allskonar fólki úr allskonar áttum hlutdeild í sömu upplifun. 40.000 grunnskólabörn fara samtímis í sama ferðalagið þegar sagan er lesin í öllum grunnskólum landsins 2. apríl. Og víkur þá - loksins - að tilefni þessa texta. Að segja frá Nesti og nýjum skóm. Fyrir tæpum fimmtán árum var Sólveig Ebba Ólafsdóttir, þáverandi formaður IBBY á Íslandi, að kenna í grunnskólum í Reykjavík. Sólveig er fróð og vel máli farin og var stundum fengin til þess að segja krökkunum sögur. Og hún var farin að taka eftir nokkru dálítið einkennilegu. Hún var farin að taka eftir því að þegar hún nefndi bræðurna á Bakka, Búkollu eða ólátabelginn hann Gutta, kom hún að tómum kofanum hjá hópi nemenda. Upp úr þessum sögustundum fæddist hugmyndin að bók sem fjallaði um það sem „allir eiga að þekkja“. Bók sem innihéldi þjóðsögur, þulur, kvæði, myndir og kafla úr lengri verkum. Bók sem myndi kveikja forvitni og gleði og gæti lifað með börnunum ævina út. Nokkrum árum síðar, árið 2008, voru Sólveig, Þorbjörg Karlsdóttir og fleiri IBBY-konur staddar á heimsþingi IBBY í Kaupmannahöfn. Þar fóru þær í heimsókn á bókasafn þar sem gestgjafarnir sýndu bók sem var alveg eins og þær Sólveig og Þorbjörg höfðu látið sig dreyma um að gefa út á Íslandi. Bók sem hafði verið gefin börnum. Eftir þessa heimsókn varð hugsjónaeldurinn ekki kæfður lengur. Stjórnin samþykkti að setja allt á fullt. Sólveig og Þorbjörg komu saman í ritnefnd og vinnan hófst. Það var ákveðið að láta drauminn rætast. Dagleið til læsis IBBY fréttir Úrvalsbókin Nesti og nýir skór kom út á degi læsis nú í haust og IBBY á Íslandi gefur bókina 10.000 börnum sem hefja nám í 1. bekk nú í haust og næsta haust.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.