Börn og menning - 2015, Blaðsíða 35

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 35
35IBBY fréttir Hann rættist á degi læsis núna í haust. Eftir margra ára grúsk í geymslum Borgarbókasafnsins, fjölda styrkumsókna og samstarfsviðræðna, ótalinna klukkustunda vinnu við hugmyndafræðina og útfærsluna, rann bókin Nesti og nýir skór úr prentsmiðjunni. Þriðji ritstjórinn bættist á endanum í hópinn, Sigþrúður Gunnarsdóttir frá Forlaginu, en Forlagið gaf bókina út með félaginu. Bókin er ægifögur. Hún er prentuð á góðan pappír, er í fallegu broti og Margrét Laxness hannaði útlit hennar þannig að myndir og texti frá áratugalöngu tímabili hafa á einhvern undraverðan hátt fengið heildarsvip. Bókin er prentuð með tveimur kápum. Önnur er rauð og er til sölu í verslunum. Hin, sú sem IBBY á Íslandi lét prenta, er blá og var prentuð í tíu þúsund eintökum. Fimm þúsund fá börnin sem eru að hefja nám í fyrsta bekk í haust og önnur fimm þúsund eru ætluð börnunum sem hefja grunnskólagönguna á næsta ári. Þetta verkefni hefur verið fjarskalega gefandi. Við höfum eignast samstarfsaðila víða, en þegar bókinni hafði verið pakkað brunuðu félagar úr Lions-hreyfingunni með hana um allt land. Lions á Íslandi var stærsti styrktaraðili útgáfunnar og styrkti hana sem sagt ekki eingöngu með fjárveitingu heldur lagði einnig fjölmargar hjálparhendur á plóginn. Bókina fóru Lions-liðar með á almenningsbókasöfnin, en þar tóku bókaverðir að sér að koma gjafabréfum til grunnskólanna. Grunnskólakennararnir komu þeim aftur til barnanna, sem gátu þá vitjað bókanna sinna á bókasafninu. Þetta síðastnefnda fannst okkur mikilvægt – bókin á að opna börnunum gátt inn í heim bókarinnar og því er mikilvægt að þau kannist við sig á bókasafninu sínu og viti hvar megi sækja í fleiri sögur. Öll þessi vinna hefur verið unnin af ástríðu og hugsjón. Bæði sjálfboðaliðarnir og þeir sem hafa verið ráðnir til verksins hafa lagt sig alla fram um margra mánaða skeið. Það er nostrað við allt sem að þessari bók kemur. Höfundar og rétthafar lögðu þung lóð á vogarskálarnar, örlátir styrktaraðilar gerðu framkvæmdina mögulega, ritnefndin lagði nótt við dag og allt samstarfsfólkið á bókasöfnunum og í grunnskólunum hefur lagst á eitt með okkur. Viðbrögðin hafa líka verið einróma jákvæð, bókin kveikir gleði hjá bæði börnum og fullorðnum. Og þar komum við aftur að hugsjón IBBY-samtakanna, um það hvernig bókmenntirnar byggi brýr. Þær byggja nefnilega ekki bara brýr á milli ólíkra þjóða, þær geta líka byggt brýr á milli kynslóðanna. Þegar börnin eignast hlutdeild í reynsluheimi foreldranna – og öfugt – myndast samræðugrundvöllur sem ekki var áður til staðar. Ekki síður er mikilvægt að börnin sjái foreldra sína gleðjast yfir bókum og upplifi að öll fjölskyldan eigi saman gæðastundir með bók. Það er lestrarhvatning sem markar raunveruleg spor. Það er mikið búið að tala um lestur og læsi í samfélaginu undanfarið. Við í IBBY höfum engan sérstakan áhuga á lestrartækni - við treystum skólunum ágætlega til að kenna börnunum hana. Því síður höfum við mikinn áhuga á mælingum eða prófunum. Raunverulegt læsi er færni sem fæst heima. Það er færni sem ungir lesendur öðlast eingöngu ef áhugi þeirra kviknar. Það verður enginn raunverulega læs af skyldurækni. Það sem þarf til þess að verða læs er virkilega góð saga. Útgáfa bókarinnar Nesti og nýir skór hefur verið ævintýri. Þetta er eitt af þessum verkefnum sem er – eftir á að hyggja – eiginlega óframkvæmanlegt þegar framkvæmdaaðilinn er fámennt félag sem samanstendur af sjálfboðaliðum. Við vonum að bókin verði ungum lesendum gott veganesti á lestrarferðalaginu sem þeir eru að leggja upp í. Við vonum að hún reynist raunveruleg lestrarhvatning fyrir alla fjölskylduna og að hún reynist, á endanum, skipta einhverju máli. Rétt eins og sögurnar og myndirnar sem í henni felast hafa skipt kynslóðirnar á undan máli. Sex ára börnin eru að leggja af stað í ferðalag. Við sem stóðum að útgáfu bókarinnar fallegu erum hins vegar komin á áfangastað – að minnsta kosti er þessi langa dagleið afstaðin. Og mig langar, fyrir hönd okkar allra, að þakka öllum samferðarmönnunum fylgdina. Án þeirra hefðum við ekki komist alla leið. Arndís Þórarinsdóttir Þegar maður er sex ára er fátt eins spennandi og að fá bréf. Ritstjórarnir Sólveig Ebba Ólafsdóttir, Sigþrúður Gunnarsdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir. Styrktaraðilar bókarinnar eru: · Barnavinafélagið Sumargjöf · Lions á Íslandi · Norvik · Miðstöð íslenskra bókmennta

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.