Börn og menning - 2019, Blaðsíða 4

Börn og menning - 2019, Blaðsíða 4
Óskabarn, óskadís, óskasteinn og óskasnillingur Bækurnar um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur Silja Aðalsteinsdóttir Það bar svo við í haust sem leið að á bókamarkaði barnanna birtist gömul vinkona sem margir höfðu saknað sárt: stuðboltinn Fíasól frá Grænalundi í Grasabæ. Fyrsta bók- in um hana, Fíasól í fínum málum, kom út árið 2004 og á næstu árum komu þær hver af annarri, Fíasól í hosiló (2, 2005), Fíasól á flandri (3, 2006) og Fíasól er flottust (4, 2008). Svo liðu tíu ár án Fíusólar en fimmta bókin blæs á svoleiðis smámuni, enda heitir hún Fíasól gefst aldrei upp (2018). Þegar bókaflokkurinn byrjaði var Fíasól sjö ára, hún var orðin átta ára í þriðju bók og níu ára í fjórðu bók en þegar hún snýr aftur núna hefur hún bara elst um eitt ár, hún er orðin tíu ára „og kraftmeiri en nokkru sinni fyrr“, eins og segir aftan á kápu.1 Í bókunum eru smásögur úr lífi Fíusólar og lítt hirt um samhengi í tíma, árstíðum og slíkum smáatriðum. Þó má merkja að meiri heildarbragur er á síðustu bók- unum en þeim fyrstu. Umfjöllunarefnin eru fjölbreyti- leg eins og sjá má á kaflafyrirsögnum, til dæmis „Fíasól og ferlegi ruslahaugurinn“ (það er einkaherbergi sögu- hetju, 1, bls. 81), „Fíasól og fúli strætókallinn“ (þar segir frá ferðalagi söguhetju í strætisvagni, 2, bls. 73), „Fíasól og kyssistrákarnir“ (þar segir frá baráttu söguhetju við strákana í skólanum sem stríða stelpunum með því að kyssa þær, 3, bls. 64 ), „Fíasól og stóra sundslysaferðin“ (sem seg- ir einmitt frá henni, 4, bls. 14) og „Fíasól og dularfulla reikningspróf- ið“ (þar sem söguhetja gleymir að skila prófúrlausninni sem hún hefur þó unnið samviskusamlega, 5, bls. 132). Allar bækurnar fimm hefjast á ónefndum kafla sem kynnir söguhetju og hennar nánasta sambýlis- og samstarfsfólk til sögu þannig að allir lesendur, nýir og gamlir, byrji á sama stað. Þessar kynningar tengjast iðulega titli bókarinnar, til dæmis hefst Fíasól í hosiló á þessum texta: Fíasól er sjö ára gömul gleðisprengja sem býr í hræðilega herberginu í Grænalundi í Grasabæ. Þar á hún heima með mömmu, pabba, Pippu systur sem er ellefu og Biddu systur sem er unglingur. Þar búa líka hundlötu kjölturakkarnir Hansína og Jensína. Þær eru svo latar að þær nenna varla að éta matinn sinn. Þær nenna alls ekki út í rigningu og drattast ekki á fætur fyrr en rétt fyrir hádegi. (bls. 6) Fíasól er sjö ára gömul gleðisprengja sem býr í hræðilega herberginu í Græna- lundi í Grasabæ. 1 Eina bók um Fíusól vantar í þessa upptalningu, Fíasól og litla ljónaránið (2010) en hún er myndabók, ætluð yngri börnum. Athugið að hér á eftir eru til hægðarauka iðulega notuð einföld númer í stað titlanna á bókunum.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.