Börn og menning - 2019, Síða 6
Börn og menning6
Mamma situr við tölvuna alla daga – kannski er hún
að skrifa bækur, það vitum við ekki. Fíasól kemur því
aldrei að tómum kofanum þegar hún kemur heim úr
skólanum. Mamma reynir að halda sínu í baráttunni
við stjórnsama barnið og iðulega takast þær duglega á.
En mamma ber líka djúpa virðingu fyrir Fíusól vegna
þess hve réttsýn og sanngjörn stelpan er þegar málsefni
hennar eru skoðuð.
Auðvitað eru flestar sögurnar af Fíusól gamansögur
sem draga fram persónuleika hennar og teikna upp
heiminn hennar í Grasabæ, en hún er líka að læra á
heiminn. Hún kemst til dæmis að því í fyrstu bókinni
að maður stelur ekki úr búðum, ekki einu sinni þótt
enginn sjái til, maður heldur ekki tombólu til styrktar
sjálfum sér, og geri maður samning þá stendur maður
við hann. Í annarri bókinni lærir hún um verkföll, hún
lærir líka á klukku og að hætta að óttast jólasveina. Í
þriðju bók kynnist hún hinum hundleiðinlegu „skyn-
semismörkum“ sem þurfa að vera á öllum hlutum og
kemst að því að það er ekki sniðugt að skrökva að fólki
þó að það geti verið ansi gaman. Þar kynnist hún líka
einelti og kemst að því „að allir eru góðir og það er svo
stutt á milli þess að vera hræddur og vondur“ (3, bls.
108). Í fjórðu bók lærir hún þarfa og fallega lexíu um
að trúa á hið yfirskilvitlega „og njóta þess að vera ævin-
týrahaus“ (bls. 84). Í síðustu bókunum kynnist Fíasól
líka dauðanum þegar hundarnir á heimilinu deyja úr
elli. Það verður mikil sorg en fjölskyldan lætur huggast
þegar heimilinu áskotnast bæði nýr hundur og köttur í
ofanálag. Það er líka stór upplifun fyrir Fíusól að fara í
jarðarför með afa sínum og ömmu í nýju bókinni þótt
ekki sé það venjuleg jarðarför – ef einhverjar jarðarfarir
eru „venjulegar“.
Baráttukona fyrir réttindum barna
Fíasól er sannkölluð fyrirmynd þegar hugðarefni henn-
ar eru könnuð í heild. Hún vill gera gagn þótt ung sé
og hún vill hafa áhrif og það gerir hún á ýmsan hátt.
Í þriðju bók safnar hún talsverðum peningum handa
bágstöddum börnum í Afganistan en í nýju bókinni
springur hún út sem hjálparsveitarforingi þegar hún
kemst í beint samband við umboðsmann barna. Það
gerir hún raunar í upphafi í eigingjörnum tilgangi. Hún
er fokreið yfir því að mega ekki eyða peningum sem
hún hefur sjálf unnið sér inn og finnst fráleitt að leggja
xxxxxx
Í þriðju bók kynnist hún
hinum hundleiðinlegu
„skynsemismörkum“ sem
þurfa að vera á öllum
hlutum og kemst að því
að það er ekki sniðugt að
skrökva að fólki þó að það
geti verið ansi gaman.