Börn og menning - 2019, Qupperneq 21
21Af hverju?
setur skemmtilega óþvingaðan blæ á textann: „Það tæki
þig um klukkutíma að keyra út í geim á bíl, ef það væri
hægt“ (VV3, bls.7); „Þó loftsteinar séu oftast pínulitlir
fylgir þeim alveg ótrúleg orka því þeir fara svo hratt“
(VV2, bls. 83).
Það sem er líka einkennandi fyrir bækurnar er hversu
glaðlyndir og einlægir höfundarnir eru og prakkaralegir
á köflum: „Eigum við að sturlast úr hræðslu? Neibb,
það er alger óþarfi. Við skulum hafa meiri áhyggjur
af því að bursta tennurnar og passa okkur á bílunum“
(VV1, bls. 27). Tungutakið er auðskiljanlegt, afslappað
og talmálslegt, laust við alla tilgerð og uppskrúfuð láta-
læti en þó glettið. Og það sem er best við textann er að
hann talar við börn og ekki niður til þeirra. Lesandinn
og höfundur/höfundar eru á jafningjagrundvelli og
virðing og væntumþykja fyrir efninu og þeim sem tekur
við því leyna sér ekki.
Formáli frá höfundi er í öllum bókunum og þar má
einnig finna mynd af Villa (og honum og Sævari í bók-
inni þeirra) að ulla sem mér þykir sérlega vel til fundið
því það sýnir okkur að höfundur er uppátækjasamur
grallari og ófeiminn við að ögra því viðtekna en oft
verður það einmitt til þess að eitthvað nýtt fæðist! For-
málar allra bókanna eru áþekkir. Þar eru krakkar hvattir
til að spyrja og vera forvitnir. Í formála þeirrar fyrstu
segir: „Við eigum öll uppáhaldsmat, uppáhaldshljóm-
sveit og uppáhaldslag. En ég á líka uppáhaldsspurningu
og hún er – af hverju?“ Og höfundur heldur áfram og
segir að ef við spyrjum þessarar spurningar nógu oft þá
komumst við að sannleikanum um heiminn og lífið og
hvaðeina. Í formála bókarinnar um geiminn og geim-
ferðirnar kveður við svipaðan tón og þar segja höf-
undarnir:
Forvitni er ótrúlega öflugt tæki sem við fæðumst
öll með í brjóstinu. Sumir týna henni þegar þeir
verða fullorðnir og það er mjög sorglegt. Við verð-
um að halda í forvitnina og þeir sem eru eldri en
við og þykir vænt um okkur eiga líka að passa að
við verðum alltaf forvitin og spyrjum alltaf öflug-
ustu spurningar í alheiminum: Af hverju? (VV3,
bls. 3)
Þetta er auðvitað hárrétt. Og þá er gott að bækur eins
og þessar séu skrifaðar, gefnar út og lesnar til þess að
svala forvitninni en líka vekja fleiri spurningar og áhuga
barna (og vonandi fullorðinna líka) á öllum þeim undr-
um sem eru í kringum okkur. Einn stærsti kostur bók-
anna er ekki síst sá að höfundar eru íslenskir og þekkja
lesendahópinn og þá menningu sem hann elst upp við.
Þeir eru nálægir og til staðar og hluti af barnamenningu
samtímans og jákvæðar fyrirmyndir á margan hátt,
ekki síst í þekkingarleitinni. Þýddar bækur eru margar
hverjar prýðisgóðar en í þeim er alltaf einhver fjarlægð
því þær spretta úr öðru umhverfi sem er að mörgu
leyti frábrugðið því sem við eigum að venjast og þar
af leiðandi verður margt í þeim framandlegt fyrir unga
lesendur á Íslandi. Bæði Vísinda-Villi og Stjörnu-Sævar
eru lunknir að velja umfjöllunarefni við hæfi íslenskra
krakka og matreiða það á fjölbreyttan og aðgengilegan
hátt. Ég vona að útgáfa af þessu tagi verði sem mest og
best um ókomna tíð. Hún hefði svo sannarlega mátt
vera það þegar ég var að alast upp.
Höfundur er grunnskólakennari og borgarfulltrúi og
áhugakona um börn og barnamenningu.