Börn og menning - 2019, Qupperneq 24

Börn og menning - 2019, Qupperneq 24
Börn og menning24 Airwaves miðalda, bavíanar og pilsaþytur Það sem mestu máli skiptir er þó auðvitað að höfund- um Sjúklega súrrar sögu tekst að miðla Íslandssögunni á aðgengilegan og eftirminnilegan hátt. Með því að líkja fiskverslun 15. aldar við Iceland Airwaves eru til dæmis mynduð tengsl í hugum lesenda sem gera þeim kleift að setja sig í spor forfeðranna. Og þegar varpað er ljósi á valdabrölt Sturlunga með því að stúdera rannsóknir á dópamíni í heilum bavíana skapast ekki bara forsend- ur fyrir skoplegum myndskreytingum heldur auknum skilningi. Allra skemmtilegast finnst mér þegar hin línulega frásögn er brotin upp með útúrdúrum sem snúa kannski fremur að sagnfræði en sögunni sjálfri, eins og þegar sagt er frá norsku hjónunum sem tókst með þrotlausum rannsóknum að staðfesta að það hefðu í raun verið norrænir menn sem fundu Ameríku eða þegar fjallað er um hlutverk sagnfræðingsins sem ofur- hetju. Það er þó ekki aðeins frásagnaraðferðin sem er hug- myndarík og skemmtileg. Myndlýsingarnar eru það líka og oft lykillinn að því hve vel tekst að rekja söguna í fáum dráttum. Það má jafnvel segja að myndirnar stuðli að róttækri söguendurskoðun þegar kemur að hlutskipti kynjanna. Í Sjúklega súrri sögu eru tvær opn- ur lagðar undir umfjöllun um stöðu og réttindabaráttu kvenna. Fjórar síður eru vissulega ekkert óskaplega mikið í 80 síðna bók en þar er að sjálfsögðu ekki við textahöfundinn að sakast, konur voru jú lengst af úti- lokaðar frá þátttöku í landsmálum og því ekki skráðar á spjöld sögunnar. Jafnvel ofurhetjusagnfræðingur eins og Sif Sigmarsdóttir getur ekki endurskrifað hana. En það geta myndirnar – alla vega upp að vissu marki. Þar sýnist mér kynjahlutfallið nefnilega fara nálægt því að vera jafnt. Það er best að taka það strax fram að enginn þarf að óttast sögufölsun – Ingólfur Arnarson, Árni Magnússon og félagar eru enn karlkyns. Stærstur hluti myndanna sýnir hins vegar íslenskan almenning í fortíð, nútíð og framtíð og á þeim teikningum eru konur og stelpur áberandi. Mig grunar að sú staðreynd að íslenskir unglingar geti nú tekið sér bók í hönd og lesið um sögu lands og þjóðar meðan konur stika um síðurnar með pilsaþyt hafi meira að segja en við áttum okkur á. Ég er ekki frá því að Sjúklega súr saga hafi stagað örlítið í gloppótta Íslandssöguþekkingu undirritaðrar sem óttast það nú mest að verða eins og maðurinn í áramótaskaupinu sem þurfti ævinlega að leita á náðir KrakkaRÚV til að halda sér upplýstum um heimsmál- in. Það er svo sem allt í lagi – svo lengi sem ég man að Sturlungar voru ekki bavíanar í raun og veru. Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Börn og menning

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.