Börn og menning - 2019, Qupperneq 30

Börn og menning - 2019, Qupperneq 30
Börn og menning30 og allt heila klabbið verður að tímabundinni afþreyingu frekar en listrænni upplifun sem skilur eitthvað eftir á tilfinningasviðinu. Unun að fylgjast með Eddu Salka Sól Eyfeld hefur löngu sannað sig sem mögnuð söngkona og frábær fjölmiðlakona, og líka sem leik- kona; hún lék t.a.m. nýverið í Ófærð 2 og skilaði þar sterkri nærveru og náttúrulegum leik í pínulitlu hlut- verki (í sjónvarpsseríu þar sem sumir okkar bestu at- vinnuleikara voru vélrænir og undarlega ósannfærandi). Hún býr yfir náttúrulegum sjarma og heillandi rödd sem gefur henni mikið forskot og því voru væntingarn- ar miklar, en því miður féll hún að ýmsu leyti flöt sem Ronja ræningjadóttir. Ronja er gríðarlega flókin persóna og margvíð. Salka býr yfir kraftinum sem þarf til að skila Ronju og virkaði vel framan af. Stundum er talað um að söngvarar syngi of mikið „á hálsinn“ þegar radd- beitingin er ekki nógu vönduð; Salka rúllaði upp öll- um sínum söng í sýningunni, en eftir því sem á leið og hasarinn jókst varð fas hennar of einhæft og ýkt, radd- beitingin í töluðu máli að sama skapi gervileg og kreist, allt að því pirrandi. Það var eins og hún „léki of mikið á hálsinn“, utan frá frekar en innan frá. Hér er hægt að velta fyrir sér muninum á hefðbundnum og lærðum atvinnuleikara annars vegar og hins vegar hæfileikarík- um listamanni sem er ekki vanur að kafa ofan í djúpa leikpersónu. Ég ber mikla virðingu fyrir Sölku Sól og hún er öflug listakona sem stundaði listnám í London þar sem áhersla var lögð á hljóðfæri sem framlengingu af leikaranum (Fréttatíminn, 6. mars 2015). Kannski hefur áherslan þar verið meiri á tónlist en á eiginlega leiklistarþjálfun. Það er þó alls ekki þar með sagt að hefðbundin leikaramenntun sé nauðsynleg til að skila öflugum leik, um það eru mýmörg dæmi, en stundum getur vantað bæði reynslu og hreinlega tækniþekkingu til að geta farið á dýptina. Mér er minnisstætt þegar Sverrir Þór Sverrisson – betur þekktur sem Sveppi – lék Kalla á þakinu fyrir nokkrum árum. Þótt Sveppi hefði marga kosti til að bera, mikið fjör, útgeislun og sprell, vantaði alla nauðsynlega dýpt í leik og raddbeitingu og fyrir vikið náði ég engu sambandi við Kalla sem mann- eskju af holdi og blóði. Þannig felst kannski helsti galli sýningarinnar um Ronju ræningjadóttur í leikaravali og leikstjórn, í samspili við leikgerð sem virðist mistæk. Tæknilega er sýningin afar vönduð, hringsviðið virkilega úthugsað og vel útfært með vandaðri lýsingu. Sviðsmyndin kom sífellt á óvart með því að umbreytast úr kastalahíbýlum yfir í hræðilega rangala eins og ekkert væri og bún- ingar voru að sama skapi skemmtilegir. Miðað við aðra leikdóma um sýninguna – suma mjög lofsamlega – er mannanna smekkur sem betur fer misjafn. Og kannski átti Salka einfaldlega slæman dag, það er aldrei að vita. Edda Björgvinsdóttir, okkar helsti stórmeistari í fjölvíðum og áreynslulausum gamanleik, stal hins vegar senunni aftur og aftur og aftur. Það var hrein unun að fylgjast með Eddu, að láta hrífast af því hvern- ig leikari getur fangað heilan sal af börnum og full- orðnum með nærverunni einni saman og haldið þeim í heljargreipum með fáeinum orðum og hnitmiðaðri líkamstjáningu. Í öllu falli áttum við feðgarnir góða stund í leikhús- inu, það bregst eiginlega aldrei, enda leikhúsið í eðli sínu töfrandi fyrirbæri. Mikill vill samt meira og í þetta sinn vantaði töluvert upp á. Höfundur er rithöfundur og bókmenntafræðingur.

x

Börn og menning

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.