Börn og menning - 2019, Qupperneq 34
„Eh! Eh!“
Þegar yngsta dóttir okkar fór að skríða lá leið hennar
oftar en ekki að bókaskápnum, þar sem barnabækur
fylltu neðstu hilluna. Á hverjum degi dró hún fram
nýja bók til að blaða í, en fór síðan brátt að draga allar
bækurnar úr neðstu hillunni fram á gólfið, til að blaða í,
til að fletta, til að skoða, til að henda frá sér.
Segullinn var sterkur, bækurnar kölluðu á hana. Hér
var nýr einstaklingur að uppgötva ævafornan hlut.
Nokkrum vikum síðar fór hún að ganga og nú lá leið
hennar enn oftar að bókaskápnum, og þaðan beint til
okkar. Á hverjum morgni fann hún sér nýja bók í hill-
unni og kom skeiðandi til okkar með hana í fanginu og
skipandi orð á vör:
„Eh! Eh!“
Lesa fyrir mig!
Þolinmæðin var ekki stór í fyrstu; eftir þrjár síður var
hún aftur rokin í bókaskápinn til að finna næstu bók.
En þessar fallegu stundir færðu manni enn á ný þá vissu
að bókin muni lifa. Hér sá maður enn og aftur hvað
bókin er heillandi fyrirbæri, hvað hún getur opnað
marga heima, hversu mikla forvitni hún vekur og gleði
hún færir.
Lítil kona var ekki orðin ársgömul og var alveg bóka-
óð. Hún lærði að rífa ekki blaðsíðurnar heldur fletta
þeim og einbeitingin og eftirvæntingarsvipurinn á and-
litinu voru óborganleg á meðan hún beið eftir því hvað
kæmi í ljós á næstu síðu. Sjálf lærðum við að búa til
sögur ofan á söguna sem prentuð var á síðurnar, því
óþolinmæði hennar gat ekki beðið eftir lestri, við urð-
um að spinna einfalda frásögn út frá myndunum.
Sögur búa til sögur. Bækur búa til nýjar bækur. Les-
andinn semur nýja í hvert sinn sem hann les.
Á sama tíma var ég að gefa út skáldsöguna „Sextíu
kíló af sólskini“ – allt þetta gerðist í jólabókaflóðinu
miðju — og kom í hverri viku heim með nýjan kassa
af bókinni, því nú er uppi krafa um að höfundurinn
selji eintök af bók sinni að loknum upplestri. Sú stutta
réðst sífellt á þessa kassa, opnaði þá og reif upp heiðgula
doðranta, lyfti léttilega þeim 60 kg og dreifði um gólfið.
Bókaæðið hélt áfram.
Þremur mánuðum síðar, um miðjan mars, þurfti
svo móðir hennar, útgefandinn, að fara á bókamessuna
í London. Ég kom með, til að gæta dóttur á meðan
móðirin stundaði fundi, en á London Book Fair hittast
útgefendur og umboðsmenn og hlusta hverjir á aðra
með þeim afleiðingum að stundum eru gerðir samn-
ingar um þýðingar og útgáfur á bókum milli landa. Á
meðan á messustandi stóð héldum við feðginin okkur
mest í almenningsgörðum og verslunarmiðstöðvum,
en brugðum okkur þó einn daginn í heimsókn á bóka-
messuna til að sjá herlegheitin og hvað mamma væri að
dunda sér við.
Og nú komst dóttir okkar í feitt því að hér voru bóka-
skápar í þúsundavís og jafnvel heilu barnabókabásarnir.
Smám saman lærði hún þó að ekki mætti hafa bækurnar
Hallgrímur Helgason
Mér finnst …