Rit Mógilsár - 2015, Page 5

Rit Mógilsár - 2015, Page 5
Rit Mógilsár 33/2015 5 ekki einungis lýst grunnkortlagningu og gerð ræktunaráætlana heldur einnig hverju þarf að huga að varðandi samskipti við landeiganda, hvaða tæki og tól þarf að nota við kortlagninguna og hvernig túlka má grunnupplýsingarnar við val á jarðvinnslu og öðrum undirbúningi fyrir gróðursetningu, tegundaval og bil milli plantna. Í handbókinni er vitnað í kortagerðarlykilinn í fjölriti Skógræktar ríkisins sem eigi að nota við kortlagningu skógræktarlands. Þó er bætt við gróðurhverfabreytuna einu gróðurhverfi, HT: Ofurfrjótt graslendi. Á síðustu árum hefur verið unnið mikilvægt starf í því að samræma skráningu landfræðilegra upplýsinga á Íslandi undir heitinu Íslenskar fitjuskrár (sjá: http://www.lmi.is/ islensk-fitjuskra/) og tengist Íslenskum staðli (ÍST 120) um skráningu og flokkun landupplýsinga (Staðlaráð Íslands 2012). Fyrir skógrækt hefur verið útbúinn sérstakur flokkur fitjuskráa. Björn Traustason, landfræðingur og sérfræðingur í LUK við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, útbjó í samráði við starfmenn Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélags Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landgræðslu ríkisins, landshlutaverkefna í skógrækt og Hekluskóga fitjuskrá fyrir fitjuflokkinn 510 Skógrækt (Landmælingar Íslands og Skógrækt ríkisins 2013). Náttúrufræðistofnun Íslands útbjó á sama hátt fitjuskrár fyrir flokka 501 Strjálgróið land og 502 Gróið land (Landmælingar Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands 2013). Í þeim eru skilgreindar sem fitjueigindir nokkrar af þeim breytum sem eru í kortlagningarlyklinum. Þegar styrkja á skógrækt á skóglausu landi eins og í tilviki landshlutaverkefnanna er áhuginn eðlilega á þeim svæðum sem vænleg eru en önnur svæði, svo sem birkiskógar og -kjarr, eldri skógrækt og votlendissvæði eru minna áhugaverð. Einungis þarf að nota 7 af 28 lýsandi breytum úr kortlagningarlyklinum sem hér er kynntur ef verið er að kortleggja land sem er án birkiskóga eða skógræktar. Með birkiskógum bætast við 6 breytur en ef á einhverjum hluta svæðisins er eldri skógrækt bætast við þar að auki 5 til 15 breytur eftir því hvort gróðursetningarnar eru tegundablandaðar eða ekki. Ekki þarf heldur að nota fyrir meginbreytuna gróðurhverfi eins mörg breytugildi og ef skógur og votlendi er á svæðinu sem taka á til skógræktar. Af 35 gildum eru 14 ekki notuð í slíkum tilvikum. Þeir skógfræðingar sem notað hafa lykilinn og gert ræktunaráætlanir hafa öðlast reynslu á notkun hans og séð hvaða breytur lýsa best aðstæðum til trjávaxtar og þrifa mismunandi trjátegunda. Þegar fjallað verður um breyturnar verður imprað á slíkum túlkunum. Þó verður að hafa í huga að trjátegunda- og aðferðaval getur verið æði misjafnt, bæði milli og innan landshluta, og er undir stöðugri endurskoðun eftir því sem þekking og reynsla eykst, veðurfar breytist og ný og betri afbrigði trjátegunda eru tekin í notkun. Að öðru leyti er fylgt í kortlagningarlyklinum íhaldssamri stefnu um að breyta sem minnstu og þá þannig að samanburðarhæfni gagna glatist ekki. Fylgt er upphaflegri hugmyndafræði grunnkortlagningarinnar sem er að lýsa á sem hlutlausastan hátt landgæðum þannig að á hverjum tíma sé hægt að nýta þær til að gera áætlanir um nýræktun eða áframhaldandi ræktun skóga á viðkomandi svæði óháð stefnubreytingum í vali á ræktunaraðferðum og trjátegundum. Markmið grunnkortlagningar Markmið grunnkortlagningar er að safna landfræðilegum upplýsingum um verðandi og nýleg skógræktarsvæði. Þessi gögn eru síðan notuð við gerð ræktunaráætlana. Hvernig gögnum er safnað Gögnin eða upplýsingarnar eru ekki aðgerða- lýsingar (þ.e.a.s. svara ekki hvernig og hvað beri að gera) heldur fremur staðhátta- eða ástandslýsingar, sem eru það margþættar og lýsandi að út frá þeim er hægt að gera sér hugmyndir um hvaða aðgerðir eða framkvæmdir henta best hverju sinni. Ástæðan fyrir því að þessi háttur er hafður á, er að með því móti er hægt að túlka gögnin á mismunandi vegu allt eftir því hvaða aðgerðakostur er valinn eða stendur til boða. Til að lýsa þessu nánar verður tekið eitt dæmi: Hugsum okkur landspildu þar sem talið er ákjósanlegt að gróðursetja stafafuru. Aðgerðalýsingin yrði þá: „Gróðursetja stafafuru í reit nr. X“. Ef ekki væru skráðar neinar aðrar upplýsingar um reitinn, væri þegar búið að girða fyrir aðra mögulega valkosti nema með því að fara aftur á staðinn og endurmeta aðgerðavalið. Með staðhátta- og ástandslýsingum, þar sem þeim þáttum sem áhrif geta haft á aðgerðavalið er lýst, er aftur á móti öllum leiðum haldið opnum. Hægt er að velja fleiri en einn kost. Til dæmis væri hægt að meta hvort notast mætti við aðrar trjátegundir í fyrrnefndum reit og hvaða trjátegundir kæmu þá helst til greina í staðinn fyrir stafafuru.

x

Rit Mógilsár

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Rit Mógilsár
https://timarit.is/publication/1563

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.