Fræðaþing landbúnaðarins - Mar 2011, Page 350
| FRÆÐAÞING LANDBÚNAÐARINS 8, 2011350
Framvinda botngróðurs við endurheimt birkiskóga
Ása L. Aradóttir1 og Guðmundur Halldórsson2
1Landbúnaðarháskóla Íslands, 2Landgræðslu ríkisins
Inngangur
Útbreiðsla birkiskóga á Íslandi er nú aðeins brot af því sem talið er að hún hafi verið
við landnám (Snorri Sigurðsson 1977) og mögulegri útbreiðslu við núverandi loftslag
(Wöll 2008). Í skýrslu nefndar um vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga er lagt til
að sett verði opinbert markmið um að birkiskógar þeki í framtíðinni a.m.k. 10% af
flatarmáli Íslands (Danfríður Skarphéðinsdóttir o.fl. 2007), sem jafngildir nærri
tíföldun á núverandi útbreiðslu birkiskóga og birkikjarrs (Björn Traustason & Arnór
Snorrason 2008). Þetta markmið er í takt við nýlegt samkomulag um framkvæmd
samningsins um líffræðilega fjölbreytni, sem kveður meðal annars á um að aðilar
samningsins endurheimti a.m.k. 15% skemmdra vistkerfa fyrir 2020 (CBD 2010).
Ágætis þekking er á leiðum til að koma birki og víði á legg (Aradóttir & Eysteinsson
2005, Kristín Svavarsdóttir 2006) en minna er vitað um það hversu hratt og í hve
miklu mæli lykilhópar birkivistkerfisins berast inn í endurheimta skóga, sem margir
geta verið einangraðir frá náttúrulegum skógum.
Rannsóknaverkefnið Kolbjörk er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands,
Landgræðslu ríkisins, Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá og Hekluskóga.
Meginmarkmið þess er að kanna þróun lífríkis, jarðvegs og kolefnisbindingar við
endurheimt birkiskóga á röskuðum svæðum (Guðmundur Halldórsson o.fl. 2009). Í
verkefninu hefur meðal annars verið leitað svara við þeirri spurningu hvort nóg sé að
koma birki á legg og endurheimta trjáþekju birkiskóga til þess að aðrar skógartegundir
nemi land og myndi gróðursamfélög er séu sambærileg við gróðursamfélög
náttúrulegra birkiskóga. Í þeim tilgangi var borinn saman botngróður misgamalla
endurheimtra birkiskóga á uppgræddu landi, náttúrulegra birkiskóga, uppgrædds lands
án birkis og óuppgræddra viðmiðunarsvæða.
Aðferðir
Rannsóknarsvæðin voru í landi Stóra-Klofa, Bolholts og Gunnarsholts
(Gunnlaugsskógur), í og við misgamla endurheimta skóga á landi sem var orðið
örfoka áður en uppgræðsluaðgerðir hófust þar. Til samanburðar voru tveir náttúrulegir
birkiskógar; Hraunteigur og Búrfellsskógur. Elsti hluti Gunnlaugsskógar er vaxinn
upp af birkifræi sem sáð var í lundi 1939 og 1944 en árið 1944 var farið að stinga upp
plöntur úr upphaflegu sáningunum og gróðursetja í litla lundi á sandi orpið hraun.
Birkið hefur síðan breiðst mikið út frá öllum þessum lundum (Aradóttir 1991). Birki
var einnig sáð í litla lundi í Stóra-Klofa um svipað leyti og sáð var í Gunnlaugsskóg
(Sveinn Sigurjónsson, munnl. uppl.) og hefur dreifst þaðan með sjálfsáningu. Birkið í
Bolholti var að mestu gróðursett.
Á uppgræðslusvæðunum voru mælireitir lagðir út í uppgræddu en skóglausu landi og í
5-15, 15-30, 30-40 og 40-60 ára gömlum skógum. Ekki voru þó allir aldursflokkar til
staðar nema í Gunnlaugsskógi. Aldursflokkunin byggir á áætlun og á gögnum um
fyrstu sáningar/gróðursetningar á svæðunum. Aldursgreiningu er lokið á hluta
reitanna (Hunziker 2011) og staðfestir hún þessa flokkun í megindráttum. Nú er verið
að ljúka aldursgreiningu á öllum svæðum (Ólafur Eggertsson, munnl. heimild). Í