Skírnir - 01.04.2009, Page 89
TRYGGVI GÍSLASON
Höfundur Völuspár
I þessari grein er leitað að höfundi Völuspár og reynt að gera sér
grein fyrir viðhorfum hans og þekkingu, stöðu hans í samfélaginu,
trúarlegum viðhorfum og tilganginum með því að yrkja þetta
margslungna trúarkvæði.
1
Enginn þekkir lengur nafn höfundar Völuspár, kvæðisins sem
nefnt hefur verið „frægasta kvæði Norðurlanda".1 Kvæðið er lagt
í munn völvu sem segir sögu heimsins frá því fyrir sköpunina og
allt til endalokanna, og er þessi frásögn uppistaða og umgerð
kvæðisins. Af þeim sökum er vert að íhuga hlutverk völvunnar og
stöðu hennar í kvæðinu.2
I upphafi ávarpar völvan mannkyn og kynnir sig. Brugðið er
upp mynd af hinu mikla tómi, gapi Ginnunga — óskapnaðinum,
kaos, áður en Óðinn og bræður hans lyfta löndum úr sæ og regla
kemst á gang himintungla og dvergarnir gera mannlíkön úr jörðu
og guðirnir gefa þeim líf og önd.3 Síðan segir frá glæstu heims-
trénu og örlaganornunum við Urðarbrunn, þar sem finna má
reglu og skipulag.4 Til sögunnar er nefnd Gullveig, tákn um mátt
1 Sigurður Nordal, Völuspá. Önnur prentun. Reykjavík: Helgafell, 1952, bls. 21.
2 Sjá Vésteinn Ólason, Islensk bókmenntasaga I, Reykjavík: Mál og menning,
1992, bls. 94.
3 Tryggvi Gíslason, „hverr skyldi dverga dróttir skepia", Festskrift til Ludvig
Holm-Olsen. 0vre Ervik: Alvheim & Eide Akademisk forlag, 1985, bls. 84-88.
4 í frásögn Völuspár af sköpuninni kemur fram sama hugsun og í sköpunarsögu
Fyrstu Mósebókar um að jörðin hafi verið auð og tóm og myrkur grúft yfir vötn-
unum og guð hafi greint ljósið frá myrkrinu og kallað ljósið dag og myrkrið
nótt. Einnig er svipuð hugsun að baki því þegar hin heiðnu goð setjast á rökstóla
til að ræða um sköpun mannsins og hugsunin í upphafi Jóhannesarguðspjalls þar
sem talað er um upphafið og orðið, logos, sem felur í sér bæði orðræðu og reglu
og skipulag sem ríkja skyldi í heiminum.
Skírnir, 183. ár (vor 2009)