Skírnir - 01.04.2009, Page 133
SKÍRNIR
KONUSKEGG OG LOÐNIR BOLLAR
131
og hún er sögð í Snorra-Eddu. Elstu dróttkvæðaskáld staðfesta að
Snorri er varla að skálda söguna upp sjálfur, a.m.k. ekki að öllu
leyti eins og haldið hefur verið fram (Frank 1981). Líkingin, sem
kemur öllum undarlega fyrir sjónir, svipar saman ælu eða úrgangi
þeim sem úr munni kemur og hinu göfugasta í mannheimum
(a.m.k. á þeim tíma): Skáldskapnum, sem einnig kom úr munni, og
einungis munni meðal fornmanna. Hér er klárlega leikið með
andstæðu hins hæsta og lægsta eða hins göfuga og ógeð-
fellda, og hafa skáldin fyrir sið að láta skáldskaparmjöðinn (sem
Óðinn spjó í kerin) standa í metónýmísku sambandi við kvæðið
sem flæðir frá vörum hverju sinni. I menningu þar sem skáldið er
miðja menningarinnar hefur slík líking meiri slagkraft en meðal
nútíðarfólks. Skáldið hefur undirbúið sig lengi fyrir flutning
kvæðis, farið einförum og reynt á gáfur sínar og orðkynngi, e.t.v.
fastað og vaknað snemma á morgnana til að bera orð saman eins
og Egill Skalla-Grímsson segist hafa gert. Sá sem ælir mitt í skál-
anum er hinsvegar ekki siðgæddur, hann hefur étið eða drukkið
yfir sig í andvaraleysi — slík hegðun heyrir jafnan til meðal jötna
og óviturra (ósnotra) í norrænum textum.28 Þannig má halda að
leikið sé með eitt aðalandstæðupar norrænnar menningar sem
snerist um skilin utan/innan samfélags eða „villiheims“ og
„siðaðs mannfélags“ eins og Davíð Erlingsson myndi kalla það
(1998). Skáldskapurinn er einmitt blendingur úr hvorutveggja í
norrænu samfélagi. Frá jötnum er hann seldur upp að hjarta
mannlegs félags, hann rýfur þilið milli andstæðnanna og gildir það
sennilega enn í dag.
Einar skálaglamm í Velleklu (IB: 117) lýsir því hvernig hann
spýr sínum kveðskap yfir mennina í salnum, eins og þegar gefur á
skipshöfn báts. Hann yrkir m.a.: Óðroris hafs alda (skáldskap-
armjöðurinn = kvæðið) þýtr við galdra fles (galdr = munnur, fles
= klettur => klettur munnsins => tungan). Þá vísar Ulfur Uggason
til þessarar andstæðuþrungnu líkingar með kenningu um kvæði
sitt Húsdrápu sem hann kallar geðfjarðar lá Oðins (eða hermanns-
28 Dæmi um þessi viðmið eru fjölmörg í goðsögnum Snorra-Eddu. Þau koma
einnig fram í Hávamálum, t.d. vísum 11, 12, 13, 19, 20 og 21.