Skírnir - 01.04.2009, Page 229
GREINAR UM BÆKUR
EINAR HREINSSON
Liðsforingjanum barst stundum bréf
Kristmundur Bjarnason:
Amtmaðurinn á Einbúasetrinu — xvisaga Gríms Jónssonar.
Iðunn, 2008.
I síðasta hefti Skírnis var til umfjöllunar safn nýlegra ævisagna og gerð
tilraun til að flokka þær og greina hvort þær segðu eitthvað nýtt, ásamt
því að velt var upp spurningum í kringum flokkanir á bókmenntaverkum
sem tengjast æviskeiðum persóna sem einhvern tíma hafa verið lifandi.
Þar segir höfundurinn á skemmtilegan hátt frá því hvað slík flokkagrein-
ing bókmennta sé í raun leiðinleg; lesandinn er sannfærður um að svona
flokkun eigi ekki rétt á sér nú á tímum en er um leið leiddur í allan sann-
leika um að hún sé þó enn fyllilega við lýði. Þessa grein og boðskap henn-
ar er ágætt að hafa í huga þegar litið er á verk Kristmundar Bjarnasonar
um Grím Jónsson, amtmanninn á Möðruvöllum. Fljótt á litið virðist hér
vera á ferðinni hefðbundið íslenskt bókmenntaverk um löngu látinn ein-
stakling, sagnfræðiverk sem ekki er skrifað af sagnfræðingi, um einstak-
ling sem er nægilega þekktur til að flestir hafi heyrt minnst á hann en sem
var samt ekki nógu spennandi til að komast í aðalhlutverk í yfirlitsverk-
um þjóðarsögunnar. Samkvæmt þessari þrautreyndu forskrift hefði bókin
líka verið prentuð í of stóru upplagi og svo týnst innan um aðrar slíkar á
árlegum bókamörkuðum. En svo er því bara alls ekki farið, hvorki um
bókina, höfundinn eða upplagið. Fyrir það fyrsta er bókin svo uppseld að
það var með harmkvælum að hægt var að ná út eintaki hjá forlagi, höf-
undurinn lendir í þeim óskaplega fámenna hópi manna sem gefa út bækur
á níræðisaldri og bókina sjálfa mætti setja í þann þrönga flokk sem kalla
mætti landshlutasögur.
Höfundur verksins, Kristmundur Bjarnason er fæddur árið 1919, og
er því að birta þetta metsöluverk sitt örskömmu fyrir nítugasta afmælis-
daginn sinn. Hann er þó síður en svo nýgræðingur í skriftum heldur
spannar ritferill hans nær sjötíu ár, og ég gef mér að textar hans séu
víðlesnir hér á landi, ekki síst vegna þess að með þýðingum sínum kynnti
Skírnir, 183. ár (vor 2009)