Skírnir - 01.04.2009, Page 244
242
EINAR FALUR INGÓLFSSON
SKÍRNIR
fjármálahrunið á haustmánuðum og skyndileg stöðvun fram-
kvæmda sem höfðu verið svo áberandi á höfuðborgarsvæðinu
næstu misserin á undan.
A sýningunni áttu ungir ljósmyndarar formhreinar og áhrifa-
miklar myndir sem sögðu sína sögu um þróun mála. Það sem átti
að verða framúrstefnulegt fjölbýlishús í úthverfi minnti á illa
leikið skotvarnabyrgi skreytt stórri auglýsingu frá fasteignasölu,
þarna var búið að leggja hraðbraut um væntanlegt hverfi og ljósa-
staurar stungust upp í himininn en húsin vantaði, túnþökur voru
enn í rúllum því verkamennirnir hurfu á braut áður en náðist að
leggja þökurnar. I myndum eins listamannsins horfðum við út um
glerlausar, forsteyptar veggeiningar inn í skógarlundi sem urðu að
víkja fyrir framrás góðærisins.
Guðmundur Ingólfsson er elstur þeirra sem sýndu þarna.
Hann sýndi röð svarthvítra ljósmynda af niðurrifi gamalla bygg-
inga í Kvosinni, formhreinar myndir þar sem kunnuglegar fram-
hliðar verslana sjást falla fram og hverfa inn í gleymskuna; þar
nærri biðu auðar lóðir eftir nýbyggingum banka, ráðstefnusölum
og lúxushótelum. Guðmundur sýndi einnig tvær flennistórar lit-
myndir, teknar á stórar blaðfilmur með tilheyrandi upplýsinga-
magni. Það var fyrir framan þessar myndir sem ég sannfærðist um
að skráningu atburða nýliðinna mánaða og æðisins með þjóðinni
hefði verið sinnt á meðvitaðan og markvissan hátt. Af fagurfræði-
legum metnaði og mikilli getu. Onnur litmynda Guðmundar var
úr Borgartúni í Reykjavík, sem átti að verða miðstöð hins nýja
fjármálaveldis Islands. Þar sést röð spegilgljáandi háhýsa, eins og
draumsýn um það sem átti að vera, og í forgrunni er gróðurríkt
hringtorg — sannkallaður Edensgarður — og á torginu er skilti
sem vísar okkur hina einu réttu leið; inn í heim fjármálastofnana.
Hin myndin er af Skúlagötunni og sýnir háhýsin sem þar stingast
upp í skýin um leið og þau byrgja öðrum miðborgarbúum útsýni
til hafs og fjalla. Byggingakranar sveiflast um myndflötinn, þarna
eru timburstaflar og annað byggingarefni, glæsibílar á götum og í
fjarska rís táknmynd máttar og dýrðar hinnar nýsköpuðu og
nýríku þjóðar, tónlistarhúsið sem loksins átti að rísa, ekki síður
auðmagninu en listinni til dýrðar.