Strandapósturinn - 01.06.1978, Síða 48
— En Stefán er löngu fluttur burtu, sagði ég. — Þú fórst ekki
með honum? Ekki hefði væst um þig hjá slíkum manni.
— Ég hafði ekkert suður að gera, svaraði Gróa gamla. — Ég
hef aldrei komið þangað. Ég uni mér hér og þar með basta. En
Stefán vildi alltaf suður eftir slysið og héldu honum engin bönd.
Mig dreymdi Stefán gamlan og nú er hann á sextugs aldri og á
fjóra syni sem allir eru sjómenn. Þeir koma hér oft, Stefán og
drengirnir, og stundum Ása konan hans Stefáns með einhverjum
þeirra. En ég fer aldrei. Eg bíð hér ásamt myndunum mínum
eftir síðasta draumnum.
— Kvíðir þú fyrir að fara, spurði ég alvarlegur og forvitinn.
— Kvíði fyrir, át Gróa gamla upp eftir mér. — Nei svo vitlaus
er ég ekki. Ég veit að þeir bíða mín þrír á bátnum sínum heilum
og fallegum. Þeir flytja mig á áfangastað blessaðir, og þá verður
búið að strauja mig svo að ég verð boðleg i þau húsakynni.
— Boðleg, sagði ég, — þú verður það alls staðar, Gróa mín,
það er ég viss um og svo mörgum, er mér sagt að þú hafir rétt
hjálparhönd, þegar á hefur þurft að halda og skotið skjólshúsi
yfir ófáa, sárfætta ferðalanga. Það get ég borið um að minnsta
kosti það síðara.
— Þú segir það drengur minn, sagði Gróa og renndi kaffi í
bollann minn og svipurinn mildaðist nokkuð. — Eg hef aldrei
verið neinum neitt nema sjálfri mér eins og allir eru og hafi ég
gert fólki greiða, þá hef ég glatt sjálfa mig um leið, eins og þegar
ég ber korn til blessaðra fuglanna minna úti i garðinum mínum,
sagði hún einkar hlýlega.
Mér varð litið út um gluggann. Sumargræn trén teygðu
greinar móti gullbjörtu kvöldinu og í flestum greinunum sátu
fuglarnir hennar Gróu. Þeir vissu sig örugga í skjóli litla hússins
þar sem gömul kona hellti enn á ný á bolla fyrir mig langtað-
kominn ferðalanginn.
46