Strandapósturinn - 01.06.1984, Page 106
ekki. Eftir þessu virðist hákarlinn verða mjög seint kynþroska.
Ekki athuguðum við þetta að neinu gagni enda engir
fiskifræðingar, en helst væri hægt að líkja því við hildir úr kú,
nema þetta var allt miklu fyrirferðarmeira, ég gæti giskað á að
eggin hafi verið um 40 til 50 að tölu og á stærð við nýra úr
ársgömlum kálfi og virtist eftir fjölda eggjanna að viðkoman
væri lítil á stofninum.
Skyrhákarl var úr baklykkjum en glerhákarl úr kviðlykkjum.
Þegar hákarl var skorinn í lykkjur hétu þær ýmsum nöfnum eftir
því hvar þær voru á hákarlinum. Baklykkja var úr baki hans.
Strabbalykkja var úr aftasta hluta baksins, næst sporði, en sá
hluti baksins var kallaður strabbi. Skaufalykkjur voru sitt hvoru
megin við gotraufina. Bægslislykkjur voru sitt hvoru megin við
bægslin eða eyruggana. Slapalykkja var fremsti hluti baksins þar
sem öndunarfærin eða tálknin voru. f raun og veru eru ekki tálkn
á hákarlinum heldur það sem kölluð voru slöp og jafngiltu
tálknum í öðrum fiskum. Þegar þessar lykkjur voru búnar til
kösunar voru slöpin flegin af og lykkjan síðan meðfarin eins og
aðrar baklykkjur.
Hákarl var mikil matbjörg fyrir heimilin og einnig til sölu.
Nýting hans var algjör þegar um doggaróðra var að ræða. Þá var
allur hákarl fluttur að landi og var allur úrgangur hertur og
hafður til eldiviðar, lifrin brædd ný og lýsið notað í bræðing sem
viðbit með brauði og harðfiski. Ennfremur var lýsið haft út á
saltfisk og einnig á lýsislampana, skrápurinn var fleginn af
stærstu lykkjunum og notaður til skógerðar.
Vel verkaður hákarl er mjög hollur matur en gæta verður þess
að neyta hans ekki í óhófi. Illa verkaður hákarl getur verið
varasamur til neyslu. Ég læt fylgja hér með skemmtilega sögu af
því hvernig fólk í gamla daga var varað við að borða skemmdan
hákarl. Þegar ég var 14 ára var ég í hálfsmánaðar dvöl hjá
gömlum hjónum. Eitt sinn sem oftar var harðfiskur og hákarl á
borðum. Þegar gamla konan var að skammta matinn eins og þá
var siður og hún fór að skera hákarlinn sagði hún, „þennan
hákarl má ekki borða, hann hefur étið mann.“ Eg varð forvitinn
104