Strandapósturinn - 01.06.1986, Blaðsíða 46
kannske einn dans eða svo, ef einhver daman var svo vingjarn-
leg að draga hann með sér út á gólfið. En kæmi það fyrir hrað-
aði hann sér mjög mikið út eftir dansinn og skrækti ákaflega
þegar hann kom út fyrir dyrnar.
Aldrei man ég eftir að Brandur væri mikið drukkinn á
skemmtunum, þótt það kæmi stundum fyrir hann við önnur tæki-
færi. En aðalerindi hans á samkomur var að virða fyrir sér ungu
stúlkurnar. Var hann þá einatt mjög ólíkindalegur og þóttist vera
að huga að einhverju allt öðru. Ef svo bar til, að hann væri alltí-
einu kominn mjög nálægt einhverri stúlku, sem honum leist vel
á, rak hann upp smáskræk og hraðaði sér í burtu með kostuleg-
um tilburðum og andlitsbrettum. Alltaf var hann öðru hvoru að
taka upp litla vasabók og blýant og skrifa hjá sér athugasemdir
um stúlkurnar. Hafði hann allar sem honum leist vel á bókaðar
með nafni og heimilisfangi og gaf þeim allskonar einkunnir, sem
hann var stöðugt að auka og endurbæta eftir því sem honum
fannst tilefni gefast. Heyrt hefi ég, að hann hafi alltaf haft
ákveðna tölu af stúlkum bókaðar, þannig að ef einhver ný kom
til sem þurfti að skrá, þá varð einhver af hinum sem fyrir voru
að strikast út. Fyrir kom að hann gerði sér ferð heim á einstaka
sveitabæi, þar sem hann hafði frétt af lögulegri stúlku en ekki séð
fyrr. Mun hann þá hafa verið að kanna hvort sú ætti skilið að
komast á spjöld vasabókarinnar. Aldrei varð ég svo fræg að fá að
sjá, hvað skrifað stóð í þessari vasabók, en einhverjum vinum sín-
um helst karlmönnum, mun hann hafa leyft að kíkja í plaggið.
Á yngri árum sínum mun Brandur hafa unnið eitt og annað í
heimasveit sinni og einnig var hann til sjós vestur á fjörðum, en
eftir að ég man hann vissi ég aldrei til þess að hann réði sig í
neinskonar vinnu, nema hvað hann tók stundum að sér sendi-
ferðir milli byggðarlaga með áríðandi bréf eða annað sem nauð-
synlegt var að kæmist fljótt og með skilum. Smávarning hafði
hann stundum með sér á ferðum sínum og seldi fólki við vægu
verði. Eitthvað smávegis mun hann og hafa unnið sér inn með
því að skrækja fyrir borgun. Höfðu ungir menn, einkum í ver-
búðum, gaman af að láta hann fremja þessar kúnstir. Var borg-
að mishátt gjald eftir því hversu hljóðið var hátt, og heyrði ég
44