Strandapósturinn - 01.06.1986, Blaðsíða 48
kekki og rak bílstjórinn hann út úr bílnum á svonefndum Háa-
mel í Kollafirði. Brandur tók þá til fótanna og var ákaflega reið-
ur. Stefndi hann í átt að bæ sem heitir Miðhús. Þar átti hann góð-
um vinum að mæta, hjónunum Guðjóni Magnússyni og Elínu
Jónsdóttur, sem þar bjuggu þá og höfðu oft greitt götu hans. Elín
sá til hans í talsverðri fjarlægð og þekkti hún strax hver þar var á
ferð. Fór hann afar hratt yfir, baðaði út öllum öngum og líktist
helst firna stórum fugli á flugi. Sá hún strax að honum mundi
vera mikið niðri fyrir, enda var sú raunin á. Hann kom rakleiðis
inn í eldhús og skrækti ógurlega um leið og hann birtist í dyrun-
um. Eitt barnanna var þar inni, drengur á fimmta ári, og gleymir
hann aldrei þeirri skelfingu sem greip hann og var hann hrædd-
ur við Brand í mörg ár á eftir. Hann hefur nú verið flugmaður
um árabil, víða farið og lent í ýmsu, en aldrei komist í hann eins
krappann og í eldhúsinu í Miðhúsum þegar Asta-Brandur birtist í
dyrunum og veitti geðshræringu sinni útrás með meiri raddstyrk
en mennskur gat talist.
Smátt og smátt tókst þeim hjónum að róa Brand og dvaldi
hann hjá þeim í nokkra daga uns hann hélt út á þjóðveginn á
ný. Sárt þótti honum eftirá að hafa orðið til þess að hræða barn-
ið og vildi fyrir hvern mun bæta fyrir það, meðal annars með
ýmsum smágjöfum.
Einstöku sinnum kom fyrir að Brandur hnuplaði á bæjum þar
sem hann kom, og þá aðallega fatnaði. Mun það hafa komið til
af fátækt hans og brýnni þörf fyrir skjólfatnað á hinum sífelldu
ferðalögum, ásamt tilfallandi útilegum á stundum. Yfirleitt munu
þetta hafa verið hversdagsflíkur, sem ekki báru teljandi af hans
eigin lörfum. Ein saga er þó til af því, að hann gerðist heldur
stórtækur til fínheitanna og valdi sér flík, sem engan veginn var
við hæfi.
Hann var þá á ferð um Strandasýslu og hafði viðdvöl á Kolla-
fjarðarnesi hjá þeim ágætu hjónum séra Jóni Brandssyni og Guð-
nýju Magnúsdóttur. Hann hvarf þaðan á braut með nokkurri
leynd og skömmu síðar kom í ljós að frakki prófastsins var horf-
inn. Séra Jón, sem var mikið góðmenni, vildi ekki gera neitt í
málinu þótt kápumissirinn væri honum bagalegur. En þar sem
46