Strandapósturinn - 01.06.1986, Side 68
hönd. Þegar yfir gilið kemur er farið yfir Litlagil, en það er til-
tölulega auðvelt yfirferðar og er það ekkert saman borið við
Miklagilið. Þó er bæði bratt og erfitt að fóta sig upp sneiðinginn
upp úr farveginum og í raun mátti ekki muna hársbreidd til að
hrasa ekki. Nærri má geta að óhægt var um vik að fara með
hesta undir klyfjum yfir þennan farartálma, en ekki er vitað um
að neitt hafi orðið að, hvorki mönnum né skepnum á þessari
erfiðu leið og er þá fyrst að hugsa til þess að Guðmundur hinn
góði, biskup, hafi haft þar hönd í bagga, en sagt var að hann hafi
blessað þennan stað.
Við ritun þessarar greinar hef ég undirrituð leitað mér heim-
ilda í þeirri góðu bók Strandamanna, er Sr. Jón Guðnason tók
saman, ásamt ómældum stuðningi og upplýsingum frá foreldrum
mínum Sigríði Gunnarsdóttur og Ragnari Guðmundssyni frá
Grænumýrartungu. Faðir minn er enda þaulkunnugur landslagi
og öllum háttum, bæði í Grænumýrartungu og í Gilhaga, þar ólst
hann mikið til upp, eða í i f ár. Síðan hefur móðir mín, sem að
vísu er líka kunnug staðháttum og einnig einstakur ættfræðiunn-
andi, verið óspör á að fá sem mestar og bestar heimildir um
menn og málefni, ekki aðeins við ritun þessarar greinar um Gil-
haga, heldur og einnig um grein þá um Grænumýrartungu, sem
birtist í síðasta hefti.
Hefur það verið henni mikið kappsmál að þessar ritsmíðar
yrðu sem best úr garði gerðar.
Hef ég síðan reynt að skrá þessar heimildir eftir bestu getu.
Nú er Gilhagi, innsti bær í Bæjarhreppi, í eyði eins og svo
margar aðrar jarðir á landinu. Hin mikla bylting atvinnu- og lífs-
hátta breytti öllu lífi og starfi manna. Sú stefna að til þess að
vera ekki annarra hjú þyrftu menn að fara að hokra, varð úrelt
og úr sér gengin. Þorp voru í uppbyggingu og auðveldara varð
um alla aðdrætti og afkomu í þorpum en á afdalabæjum. Nú
flutti fólk „á mölina“, en ekki upp í afdal.
Nýr tími var genginn í garð og ný kynslóð tekin við. Eftir
standa grænar tóftir og gengin spor.
66