Strandapósturinn - 01.06.1986, Page 121
þarna, sem tóku okkur svona vel. Ég man að Guðbjörg Jónsdótt-
ir skáldkona kom og heilsaði okkur og kvaddi ljúfmannlega, þeg-
ar við fórum. Þess vegna álykta ég að það hafi verið á hennar
heimili eða sona hennar, Jóns eða Þorsteins. Allmörgum árum
síðar bar fundum okkar Þorsteins saman á Hólmavík. Ég mundi
þá ekki eftir að leiða þetta í tal við hann. Mér þóttu reisuleg hús-
in og falleg bændabýlin á Broddanesi.
Að góðri stundu liðinni héldum við ferðinni áfram. Þá geng-
um við út með sjó, kringum Ennishöfða. A einum stað fyrir höfð-
anum fórum við eftir klettasyllu. Það var slétt og breið gata, auð-
sýnilega löguð af mannahöndum — mikill munur að labba eftir
henni eða ófæruhillunum á Hornströndum.
Við komum að Skriðnesenni seinni part dags. Þar kom Stein-
unn Guðmundsdóttir húsfreyja út á hlað á móti okkur og bauð
okkur hjartanlega velkomna. Hygg ég að hún hafi verið búin að
frétta af ferð okkar í síma eða á annan hátt. Móðir mín og Stein-
unn skrifuðust á. Þær höfðu þekkst frá unga aldri og bundist
órofa tryggðum. Húsfreyjan á Skriðnesenni þráði nú að fá okkur
í bæinn til að veita okkur góðgerðir og gistingu. Hann fýsti líka
að heyra fréttir af vinafólki og sveitungum í Arneshreppi. Það
var hálfgerður galsi í okkur, sumum að minnsta kosti, svo að allt
of lítið varð úr samræðum við Steinunni húsfreyju, sem ærinn
starfa hafði á höndum, en langaði til að frétta meira frá fólkinu í
Reykjarfirði og úr Arneshreppi. Ég fékk dálítið samviskubit út af
þessu tillitsleysi okkar félaga, en allt var það fyrirgefið. Ég minn-
ist með þakklæti þessarar góðu gistingar í gamla bænum á Skrið-
nesenni haustið 1936.
Ekki gerðu þau það endasleppt við okkur félaga, hjónin á
Skriðnesenni. Um morguninn, fimmtudag, var hafður til matur
fyrir okkur. Húsbóndinn Jón Lýðsson var þá búinn að ráða
mann á næsta bæ, Bræðrabrekku, til að flytja okkur á trillu yfir
Bitrufjörð. Jón fór svo með okkur.
Þegar við komum að Brekku um hádegisbil var Eysteinn Ein-
arsson bóndi ferðbúinn. Við hjálpuðumst að við að setja trilluna
á flot, síðan var vélin hituð upp og sett í gang. Var svo lagt af
stað og stefnan tekin á bæinn Þambárvelli hinum megin við
119