Strandapósturinn - 01.06.1986, Qupperneq 138
Steinkolablek, sótblek, kálfsblóð og fleira þótti vel notandi á þeim
árum, og hellublek þegar tímar bötnuðu. Fjaðrapennar voru
lengi aðal áhaldið. Ég man hve vænt mér þótti um þegar séra
Jón Blöndal, sem þá var verzlunarstjóri á Borðeyri, sendi mér
einu sinni ljómandi gyllta pennastöng með silfurskærum penna í
að gjöf.
Við bræður lærðum að skrifa eftir umslögum sendibréfa og
stafrófum ffá hinum og þessum af öllum dráttartegundum, oft
ekki sem fínustum. Ég hneigðist snemma til að reyna að skrifa
ýmsa skrautstafi, t.a.m. af settletri og ýmsar „handir“. Skrifuðum
við bræður ósköpin öll af sögum og rímum. Líkaði Guðna þau
efni betur en mér og kunni hann jafnan utanað, þegar búið var
það sem hann hafði skrifað. En þetta vandi mig samt á að nota
tímann betur en ella og á ég enn mikið af bókum, einkum
nótnabókum og útdrátt úr lækningabókum og öðrum fræðiritum,
sem ég ekki gat eignazt efna vegna. Er mest af því skrifað á þeim
stundum, er aðrir notuðu til hvíldar, að nóttu til. Þegar ég var á
16. ári fór ég í vist til Jóns bónda Þórðarsonar í Skálholtsvík. Var
hann þá við aldur. Þótti hann sumum ærið harður húsbóndi og
nokkuð sérvitur. Kom það til af því að hann var maður djúp-
hygginn, hagsýnn, las mikið meira en flestir bændur aðrir, og las
annað en mest tíðkaðist, nefnilega úrval úr bókum eða ekkert. Að
hugsunarhætti til var hann á undan samtíðinni þar í sveit og
þótti því sérvitur eins og tíðkast — og var það líka, en án þess að
hann ætti þar óvirðu fyrir skilda. Ekki neita ég því að vistin væri
nokkuð hörð, en samt tel ég mér meira happ að hafa á því
heimili verið en flestum öðrum. Þar byrjaði ég fyrst að reyna
ögn að hugsa og enn man ég ýmsar viturlegar setningar, er Jón
mælti til mín og ýmsar hollar bendingar, sem að notum hafa
komið. Mun ég æ minnast Jóns með virðingu og þökk.
Stórkostlega merkilegt þótti á þeirri tíð, að Jón tók það í sig að
senda mig í skólann að Hvoli í Saurbæ, er Torfi í Olafsdal þá
kenndi í, og dvaldi ég þar í 3 vikur. Og þótt tíminn væri stuttur
hafði ég hans nokkur not. Hjá Jóni dvaldi ég í 2 ár, en fór svo
aftur til foreldra minna og var hjá þeim unz faðir minn sálugi
andaðist árið 1887.
136