Strandapósturinn - 01.06.1986, Qupperneq 142
bændabýli og báðum um vatn að drekka en var neitað um það
alls staðar. Vorum víst álitnir flækingar sem vitanlega er ekki
siður að gjöra gott hér á landi.
Þegar líða tók að miðdegi gjörðust menn slæptir mjög og
drógust sumir aftur úr. Fór svo að lokum að einn maður komst
með mér til Fort Rogue, sem þá var þorp sunnan við aðalbæinn
Winnipeg, en er nú í aðalbænum. Sjálfur komst ég alveg heim til
mín, þrem mílum lengra, nokkurn veginn uppgefinn, um 40
mílur frá Morris. Suma af þessum félögum sá ég aldrei aftur.
Eftir 3 daga voru hinir landarnir allir reknir (þar á meðal H.
Bardal, Gestur og Páll) og urðu að ganga með byrðar sínar alla
leið. Enginn þessara manna held ég hafi farið í járnbrautarvinnu
aftur.
Fleira smálegt hefur skeð, sem er að því leyti einu gott, að það
er liðið.
Oft leið mér ekki sem bezt í Winnipeg, sem stafaði aðallega af
atvinnuleysi, heimþrá, heilsuleysi mínu og konunnar. Síðasta
sumarið sem Guðrún sáluga lifði var hún þrisvar undir upp-
skurðum, mjög óvanalega vandasömum og erfiðum. Stundaði
hana sem læknir prófessor H.H. Chown, sem þá var talinn beztur
skurðlæknir í bænum. Lá hún alla þá tíma í „prívat“ deild á
sjúkrahúsinu (það er deild sem borga verður að fullri upphæð
fyrir). Ég má geta þess að dr. Chown þessi reyndist mér og mín-
um framúrskarandi vel og uppskurðirnir voru taldir meistara-
verk. Loks andaðist Guðrún sáluga þann 24. október 1894 eftir
miklar og langar þjáningar.
Við eignuðumst 3 börn: Herdísi Margréti, gifta Kára Friðriks-
syni gjaldkera í Stjórnarbankanum í Winnipeg, Kristínu, umsjón-
arkonu talsímakerfanna að Carman, Manitoba og Einar Hafsteins,
er dó þann 26. ágúst 1894 liðlega ársgamall.
I annað sinn giftist ég þann 6. júní 1897 Kristjönu Sigríði
Helgadóttur frá Vatnsenda í Eyjafirði. Börn okkar þrír drengir:
Þórmann Benedikt, Finnur Hafsteinn, Karl Leó, og dætur tvær:
Helga Guðbjörg og Emilía Guðrún.
Fyrstu ritgerð mína í blað skrifaði ég á Valdastöðum: Um
140