Strandapósturinn - 01.06.1986, Qupperneq 153
Ég færði mig og fór að grafa holu á öðrum stað. Verið gæti,
að misjafnlega djúpt væri niður á þessa jarðskorpu. Hér gróf ég
eins djúpt og ég gat og gáði vandlega, hvort ekkert væri hér
heldur að finna. En hvernig sem ég rýndi í moldina í hliðum hol-
unnar gat ég enga himnu séð, enga skurn, enga skorpu. Hvar í
ósköpunum gat hún þá verið, þessi jarðskorpa?
Ég stóð sveittur við holuna mína, þegar pabbi kom til mín.
„Hvað ert þú að gera hérna?“ spurði hann. „Þú ert búinn að
grafa djúpa holu.“
„Já, ég er að leita að jarðskorpunni,“ svaraði ég. „Þið voruð að
tala um hana. En ég get hvergi fundið hana.“
Pabbi fór að hlæja. „Það er nú ekki von að þú gedr fundið
hana,“ sagði hann.
„Þið sögðuð, að hún væri eins og skurn á fuglseggi, og að hún
lægi efst í jörðinni."
„Þetta er nú svolítill misskilningur," sagði pabbi. Og hann fór
að útskýra fyrir mér, hvernig í þessu lægi. Hann sagði mér, að öll
jörðin væri eins og gríðarlega stór kúla eða bolti. Hún væri bráð-
in að innan, en utan um hana alla væri storknað lag, sem væri
hlutfallslega eins þunnt, í samanburði við stærð allrar jarðarinn-
ar, eins og skurn á fuglseggi.
Ég spurði ýmissa spurninga um þetta merkilega mál, og hann
reyndi að útskýra það fyrir mér, eftir bestu getu.
En hvernig sem ég reyndi, þá gat ég víst aldrei skilið að fullu,
hvernig þessi jarðskorpa væri í raun og veru. Minn litli heili gat
ekki rúmað þessi miklu fræði.
Við gengum heim að bænum og ég lét skófluna á sinn stað.
Pabbi sagði mömmu frá, hvað ég hafði verið að gera. Það var
auðséð á þeim, að þeim þótti dálítið gaman að þessu. Þau hlógu
svolítið bæði, að þessari skrítnu tilraun drengsins síns lida til að
finna jarðskorpuna.
151