Strandapósturinn - 01.06.1988, Síða 45
systkinum hvað kærastar húsdýranna, enda voru það þær sem
gáfu okkur smjörið á brauðið og margan góðan sopann.
Á þessum árum voru fráfærur enn stundaðar á öllum bæjum,
og man ég vel þegar komið var heim að kvíunum með ærnar á
kvöldin og þær mjólkaðar, en kvíarnar voru á árbakkanum, neðan
við bæjarhólinn. I þá daga var stór graseyri á árbakkanum fram-
undan kálgarði, sem var í brekku suður af bænurn. En nú hefur
áin brotið eyrina, þar sem áður voru kvíar beggja búanna. Þannig
hefur margt skipt um svip á þeim áratugum, sem liðnir eru frá
bernskuárum mínum, en margt er þó eins og það áður var, svo
sem steinar, vogar, klettar og börð. Allt er þetta á sínum stað þó
ævin hafði liðið, og margs er að minnast frá æskuárunum. Ekki
síst um þá, sem leiddu okkur og leiðbeindu fyrstu sporin og
beindu opnum barnshuganum að dásemdum náttúrunnar, sem
hvarvetna blöstu við, og vöktu áhuga okkar til leikja og starfa. Allt
var gert tii þess, að sú kynslóð sem var að vaxa úr grasi væri sem
best búin undir lífsbaráttuna og að takast á við þau verkefni, sem
hún óhjákvæmilega átti eftir að takast á við.
Við fáurn því aldrei metið og þakkað til fulls þær fórnir sem
foreldrar okkar tóku á sig okkar vegna og það sem þeir kenndu
okkur í æsku.
Gleymum því ekki skyldum okkar við forfeðurna, ræktum með
okkur frændrækni og vináttu, reynum eftir mætti að viðhalda
ættartengslum og efla þau. Til þess erum við hér saman komin í
dag og vonandi verður það upphafið að mörgum slíkum sam-
verustundum. Það væri í anda hjónanna á Stóru-Hvalsá.
Flutt á ættarmóti í Domus Medica 9. mars 1985.
43