Strandapósturinn - 01.06.1988, Síða 71
þeir sem um þetta fjölluðu allir af vilja gerðir til að finna bestu
lausnina og innan skamms var hún líka í sjónmáli. Gamli maður-
inn skyldi ráðinn eftirlitskennari í sveitinni og þeim sem hlut áttu
að máli gert skylt að veita honum þá fyrirgreiðslu sem með þurfti,
til dæmis fæði og húsaskjól á ferðalögum og fylgd milli bæja því
hann var orðinn fótfúinn og seinfær. Fræðslunefndin sem sam-
kvæmt laganna hljóðan hafði síðast orðið í þessu máli, samþykkti
fúslega þennan gjörning og fannst sem með honum væri leystur
hennar hlutur á farsælan hátt. Þessi gamli maður varð svo fyrsti
utanheimiliskennari sem ég hafði af að segja, ekki þó þannig að
hann nokkru sinni kenndi mér, en hann kom og kynnti sér kunn-
áttu mína eins og annarra barna í sveitinni og gerði það með
nokkuð sérstökum hætti. Þegar hann lét mig lesa setti hann mig
við hlið sér, opnaði bókina, valdi handa mér lesefni og fylgdi svo
línunum með vísifingrinum á hægri hendi og las sjálfur með mér
textann, stundum full svo hratt og ég. Þegar við þannig höfðum
komist saman yfir eina og hálfa blaðsíðu lokaði hann bókinni,
klappaði á kollinn á mér og sagði: „Já, þetta var gott hjá þér góði
minn, það er vissulega satt.“ Þegar ég svo skyldi reikna skrifaði
hann dæmi á spjaldið mitt, útskýrði það nákvæmlega fyrir mér og
þegar ég hafði leyst það endurtók hann sömu setningarnar „Þetta
var gott hjá þér góði minn, það er vissulega satt.“ Þessi lokasetn-
ing, það er vissulega satt, mun hafa verið lokaorðin á predikunum
hans á þeim árum sem hann var að boða fólki hin einu sönnu
lífssannindi og vara það við vélabrögðum djöfulsins og þess vegna
verið honum svo munntöm. Líklega fékk ég góða einkunn á
barnaprófi um vorið þó ekki nyti ég þá í jafn ríkum mæli aðstoðar
prófdómarans og hjá blessuðum gamla manninum. En þó allir
væru sjálfsagt ekki jafn fullvissir um gildi þessarar fræðslu, þá var
þó visst atriði í framkvæmd hennar sem vakti nokkra athygli og
olli því að almenningur gaf henni talsverðan gaum. Þegar krakk-
arnir þrettán ára gamlir höfðu lokið sinni skólaskyldu með fulln-
aðarprófi voru einkunnir þeirra lesnar upp í heyranda hljóði á
vorhreppsskilum. Þannig varð almenningi kunnugt hvernig
fræðslunni hafði verið fram fylgt og hver árangur hafði náðst.
Einkunnir voru gefnar frá 1 upp til 8 og auk þess millistig milli
69