Strandapósturinn - 01.06.1988, Side 112
Nema það að skyndilega kemur upp úr djúpinu stór og mikill
bakuggi. Hann rennir sér meðfram borðstokknum rétt við nefið á
mér og lyftir árinni af tollanum svo hún flýtur í burtu.
Eg efa að ég hafi í annan tíma orðið jafn hrædd. Eg þreif í
Sólbjörgu með krampataki og hún spurði önuglega hvað gengi á.
Ég benti bara á uggann gapandi og stjörf án þess að geta komið
upp nokkru hljóði. En það hnussaði aðeins í henni og hún fór að
damla með árinni sem eftir var til að ná í hina sem flaut á næstu
báru.
Ég stóð bara skjálfandi með hjartað í buxunum og beið þess að
þokunni létti, því að ógerningur var að gera sér grein fyrir áttum.
En biðin varð ekki ýkja löng, það fór að heyrast hó og hundgá,
sem var merki þess að við ættum að koma í land. Fólkinu var hætt
að lítast á hvað þokan var svört.
í annan tíma vorum við á sjó nokkrir krakkar á aldrinum 12—16
ára að sumarlagi. Komið var kvöld og sjórinn eins og spegill. Við
Húnaflóann sest sólin tæplega á þeim tíma árs, heldur rennir sér
eftir sjóndeildarhringnum í allri sinni dýrð, og enginn getur þá
lýst litum hafs og himins með orðum.
En það virtist vera hundur í þeim gráa, hann tók ekki, hvernig
sem við kipptum fram og aftur og hertum okkur að dorga. Nú,
það kom galsi í mannskapinn og við fórum að heita á hina og þessa
máttarstólpa þjóðfélagsins að þeir sendu fisk á öngla okkar en allt
kom fyrir ekki, ekkert gekk né gerðist. Þegar þeir urðu ekki við,
hét einhver á drottin, og allt sat við það sama. I ofurmóði og til
jafnvægis hét ég á þann neðra og taldi þá fullreynt. I sama bili varð
færið fast. Ég togaði í og togaði og hægt og hægt lyftist hluturinn
frá botni. Við störðum með óhug á slýgrænan ódráttinn sem steig
upp úr djúpinu. Ennþá veit ég ekki hvað þetta var, því einn félagi
minn brá hníf sínum á færið og þessi óhugnanlegi hlutur hvarf
niður með sökkuna mína og öngulinn.
Þau hin voru fljót að draga inn færin og svo var róið í land af
skyndingu.
Sjálfsagt hefði þetta reynst vera einhver nauða-hversdagslegur
hlutur ef við hefðum aðgætt hann betur. En óttinn við hið óþekkta
orsakaði hnífsbragðið. A þessum árum var hjátrúin meiri en nú
lfO