Strandapósturinn - 01.06.1988, Blaðsíða 116
að ég hygg, merkur bóndi á sinni tíð hlynntur öllum framförum í
búskaparháttum. Hann hafði stundað búfræðinám í Noregi og
var trúi ég einn af fyrstu Islendingum sem sigldu þangað til slíks
náms. Afabróðir minn var séra Þorvaldur Bjarnarson á Melstað í
Miðfirði, kunnur lærdómsmaður á sinni tíð.
Pabbi var ættaður norðan úr Tungusveit í Steingrímsfirði. Jón
föðurafi minn bjó á Gestsstöðum og Heydalsá þar í sveit. Hann
var tvígiftur, og föðuramma mín var fyrri kona hans, Júlíana
Ormsdóttir frá Miðdalsgröf. Alsystkini pabba voru tvö, Guðjón,
smiður, búsettur í Hólmavík, og Elín, hún dó 15 ára að aldri.
Hálfbræður átti pabbi fjóra, sem allir voru búsettir norður í
Steingrímsfírði, í Hólmavík og nágrenni. (Skylt er að geta þess, að
í öllu sem að ættfræði lýtur, styðst ég við rit séra Jóns Guðnasonar,
Strandamenn. Sjálfur hef ég aldrei getað lært ættfræði, komist
lengst aftur í langafa og langömmur. Mér finnst líka oft, að þegar
fólk kemur saman og fer að rekja ættir sínar, þá eru allir orðnir
skyldir öllum áður en lýkur.).
Föðurfólki mínu kynntist ég nálega ekkert á bernskuárum mín-
um, það voru ekki beinlínis daglegar ferðir milli Hrútafjarðar og
Steingrímsfjarðar í þá daga. Mig rámar í að hafa einu sinni séð
föðurafa minn, góðlátlegan gamlan mann með mikið gráleitt
alskegg. Sú minning er þó mjög óljós.
Eftir að við fluttum suður á höfuðborgarsvæðið hef ég hins
vegar kynnst mörgu föðurfólki mínu allvel, og á fullorðinsaldri
hef ég nokkrum sinnum ferðast norður í Steingrímsfjörðinn og
heimsótt frændfólk, sem enn er búsett þar.
Eins og fyrr er sagt bjuggu foreldrar mínir á parti afjörðinni, en
ekki þori ég að fullyrða neitt um það, hve stór sá partur var. Og
trúlega er réttara að orði komist, að pabbi og mamma hafi hokrað
á þessum jarðarparti, því þótt Kolbeinsáin væri stór hlunninda-
jörð, bar lítill partur af henni ekki stórt bú. Um leiguskilmála
foreldra minna á jarðarpartinum er ég alls ófróður. Ég man ekki
til að þau minntust nokkurn tíma á þá í minni áheyrn. Ef ég væri
spurður þeirrar samviskuspurningar, hvort foreldrar mínir hafi
verið fátækt fólk á þeirrar tíðar vísu, mundi mér vefjast tunga um
tönn að svara. Það er hvorttveggja, að ég þekki engan algildan
114