Strandapósturinn - 01.06.1988, Side 117
mælikvarða á fátækt og auðæfi, og í annan stað bjó ég við slíkt
ástríki af þeirra hálfu, að það hvarflaði aldrei að mér að þau væru
fátækari en almennt gerðist. Eg veit raunar að búpeningur þeirra
var stórum minni en annarra ábúenda á jörðinni, og þetta voru
„erfiðir tímar“. Auk þess hygg ég að pabbi hafi að eðlisfari verið
hneigðari fyrir ýmsilegt annað en venjulegan sveitabúskap. Hann
var prýðilega lagtækur og hafði yndi af smíðum. Mér eru í
barnsminni ýmsir smíðisgripir hans, smíðaðir við lélegar aðstæð-
ur og lítinn tækjakost. Mamma hafði verið vetrartíma í Reykjavík
og gengið þar í kvöldskóla. Hygg ég að hugur hennar hafi staðið
til frekari menntunar, en aðstæður leyfðu það ekki.
Ábúendur á Kolbeinsá, auk foreldra minna, voru þegar ég man
fyrst eftir mér: Jón Jónsson og Ingibjörg móðursystir mín, sem
bjuggu á hálfri jörðinni, Jóhanna Lýðsdóttir, ekkja Stefáns móð-
urbróður míns, bjó ásamt tveimur börnum sínum á hluta af jörð-
inni, þar bjó einnig Jón bróðir hennar, sem var ekkjumaður.
Lýður faðir Jóhönnu og Jóns og seinni kona hans, Guðrún Guð-
mundsdóttir, voru og til heimilis á Kolbeinsá og höfðu eitthvað af
skepnum, ef ég man rétt. Lýður var lærður söðlasmiður og dútlaði
við iðn sína í kompunni þeirra. Hann hafði það fyrir sið að raula
fyrir munni sér ýmsar gamlar þulur og stef, þegar hann var á róli
um bæinn eða úti við. Einhvern tíma hittist þannig á að mamma
var að kalla á okkur systkinin inn og rétt í sama mund bar Lýð þar
að, raulandi: „Grýla kallar á börnin sín“. Auðvitað var þetta ekki
sneið til mömmu, þótt svona skemmtilega hittist á, og ég man enn
þá, hvað mamma hló innilega að þessu á eftir. Guðrún, kona Lýðs,
eða Gunna, eins og hún var alltaf kölluð, var fjarska góð við mig
og sagði mér ófáar sögur og ævintýri.
Björn Finnbogason og Guðlaug Lýðsdóttir, hálfsystir Jóhönnu
og Jóns, bjuggu nokkur ár á Kolbeinsá, en þau fluttust ekki
þangað fyrr en nokkru áður en við fluttumst til Borðeyrar, þannig
að við vorum aðeins stuttan tíma samtíða þeim á Kolbeinsá. Auk
þeirra ábúenda sem nefndir eru, man ég eftir mörgu vinnu- og
kaupafólki á Kolbeinsá á þessum árum, svo að það var iðulega æði
mannmargt á bænum. Eg var víst dálítið frakkur bæði til orðs og
æðis sem krakki, og hef ég sagt sögur af því í „Fáeinum bernsku-
115