Strandapósturinn - 01.06.1990, Page 72
bera“. Við komum að Kaldrananesi til frændfólks míns, fengum
þar góðgerðir og flutning yfir Bjarnarfjörð að Reykjarvík, og tók
nú við löng leið norður Bala að Eyjum.
Kvöldsett var orðið þegar þangað kom, laugardag fyrir hvíta-
sunnu. Á Eyjum var tvíbýli. Þar sem ég átti að vera bjuggu Gestur
Loftsson og Anna Guðmundsdóttir, móðursystir mín. Þau voru
barnlaus, en höfðu tekið nýfæddan dreng frá dáinni móður og
ólu hann upp sem sinn dreng. Þau höfðu óskað mjög eftir að fá
telpu en ekki strák. Ég var því ekki beint það óskabarn sem þau
höfðu vonast eftir að fá.
Þetta var efnaheimili og húsnæði betra en víða og engan skorti
neitt. Fyrir sjö ára barn var það eins og að koma í annan heim að
koma úr torfbæ inni í dal í stórt og veglegt timburhús á sjávar-
strönd. Svo var þessi undarlegi ilmur af harðfiski og hákarli í
hjöllum. Faðir minn var um kyrrt á hvítasunnudag, en á annan
sneri hann til baka og ætlaði að Þambárvöllum í Bitru þar sem
Skúli bróðir hans bjó, en til þeirra hjóna átti Leó bróðir að fara og
ólst hann þar upp. Eldri systir okkar, Magðalena, var þá komin að
Þambárvöllum til Kristjáns Helgasonar og Ástu konu hans. >
Pabbi hét fullu nafni Guðlaugur Bjarni Guðmundsson og var
frá Geirmundarstöðum á Skarðsströnd, en fæddur var hann á
Borgum í Hrútafirði. Hann fékk bátsferð frá Eyjum og inn að
Kaldrananesi. Hann tók í hönd mér og leiddi mig niður að lend-
ingunni þar sem báturinn beið ferðbúinn. Skilnaðarstundin var
runnin upp. Hún var sár og við grétum báðir. Ferðin var á enda,
en lífið framundan.
70
j