Strandapósturinn - 01.06.2011, Page 74
72
en ég man eftir því að talað var um þetta – og í einhverjum tilfell-
um voru útlendingar á ferð þar um slóðir.
Ég minnist þess til dæmis að eitt sumarið var útlendingur á ferð
og baðst gistingar í Skjaldarvík. Ekki var mér ljóst hverrar þjóðar
maðurinn var, því þá hafði ég ekki lært erlend mál – né neitt af
heimilisfólkinu. En það var tekið vel á móti honum og mér er
minnisstætt að hann gerði sér mjög dælt við okkur krakkana,
kenndi okkur galdra og töfrabrögð og var þetta kærkominn gest-
ur í okkar augum og hinn skemmtilegasti. Hann hélt síðan áfram
ferð sinni áleiðis til Reykjarfjarðar – og vissum við ekki meira um
hann.
En nokkru síðar fannst á þeirri leið gæra, haus og lappir af
lambi í lækjarsytru – og var augljóst að þessar lambsleifar voru
skornar af með eggvopni en ekki slitrur eftir tófu eða annan varg.
Settu menn þetta svo í samband hvort við annað – og fleiri menn
höfðu verið þarna á ferli og sáust þess merki, en ósagt skal látið
hver valdið hefur.
En nóg um það – mönnum fannst þetta dularfullt, því á þess-
um slóðum voru menn ekki að ferðast að nauðsynjalausu – en á
milli bæja var þá aðallega farið á sjó því langt var á milli bæjanna
og menn ekki á ferðinni á hverjum degi.
Heyskapur og önnur sveitastörf
Í Skjaldarvík var lifað af því sem landið gaf – stundaður algeng-
ur búskapur með ær og kýr og hesta, – eggjatekja í nálægum
björgum, veiðiskapur til sjós og lands – og heyskapur með aðferð-
um sem gilt höfðu um aldir.
Því lærðist mér fljótt að meta sveitalífið og njóta náttúrunnar
– og alltaf var ég farinn að hlakka til á vorin, þegar skólinn var
búinn heima í Hnífsdal, þar sem ég ólst upp – og ég naut þess að
komast í sveitina sem allra fyrst. Það var lærdómsríkt að kynnast
því lífi og þeim vinnubrögðum, sem tíðkuðust á Ströndum, og ég
vildi ekki hafa misst af því.
Í Sunndal er undirlendi allmikið og þar var oft heyjað á engj-
um á sumrin. Fóru þá sláttumennirnir á bænum þangað til að slá.
Var þá oft legið við í tjaldi til þess að tíminn nýttist sem best. Kom
þá oft í minn hlut að raka saman heyið – ásamt fleirum auðvitað.
Var það tekið saman í föng og raðað í svonefnda fangahnappa –