Strandapósturinn - 01.06.2011, Síða 81
79
geislum miðnætursólarinnar – og ef þú réttir hönd þína út yfir
borðstokkinn, því báturinn var orðinn nokkuð hlaðinn, þá var
eins og sjórinn væri kvikur og á hreyfingu, því rauðátan smaug
um fingur þér og auðséð var að nóg var um átu í sjónum.
Já, þetta var fallegt kvöld og minningin sterk um þessa fyrstu
sjóferð mína til veiða. En auðvitað hafði ég oft farið með bátum
og skipum á milli staða og því ekki óvanur ferðum á sjó – auk þess
sem ég var vanur því á mínum æskuárum að standa á bryggjunni
í Hnífsdal og veiða marhnúta, kola, ufsa og þyrsklinga, svo veiði-
náttúran var löngu vakin, en að stunda handfæraveiðar úti á
rúmsjó í slíkri kvöldfegurð og fagurri náttúruumgjörð var nýnæmi
sem ekki gleymist.
En það var farið til veiða í Skjaldarvík á fleiri sviðum. Silungs-
veiði var talsverð í Norðdalsá og stundum var farið þangað með
net og dregið á og fékkst þá hinn vænsti silungur. Það var ekki
verið að dorga þar með veiðistöng, nei, það var dregið á og tekið
það sem hægt var að ná við dráttinn. Einnig var farið – að mig
minnir – oftar en einu sinni inn í Bjarnarfjörð og dregið á í Bjarn-
arfjarðará og fékkst þar góð veiði.
Og talandi um Bjarnarfjörð þá varð ég einu sinni vitni að því,
er hvalavaða mikil gekk þar á land í fjarðarbotninum – fjöldi smá-
hvela, sem mönnum var akkur í að veiða og njóta afurðanna. Þá
var ekki verið að stugga dýrunum frá eins og nú er gert svo víða
við slíkar aðstæður – nei, menn báru sig eftir björginni þegar hún
gafst.
Og einhvern veginn hefur fiskisagan flogið, því Bjarnarfjörður
er á milli Skjaldabjarnarvíkur og Dranga og langt á milli bæja. En
þetta var mikil atganga og margur hvalurinn endaði þar ævi sína
og menn skáru kjöt og rengi sem mest þeir máttu og fluttu heim
á trillum sínum og bátum – og jafnvel landveg, sem þó var býsna
langur til bæjanna í kring.
Þetta minnir á það, þegar sagt er frá grindhvalaveiðum í Fær-
eyjum og viðureign þeirra við slíkar aðstæður. En það var mikið
um hvalkjöt á borðum næstu daga og vikur og mikið soðið af
rengi til súrsunar fyrir veturinn.
En talandi um Bjarnarfjörð – þá er mér aftur hugsað til hey-
skapar í Skaufaseli – og fyrir handan fjörðinn, Dranga megin, er
svo Meyjarsel. Og vafalaust hefur verið haft í seli á báðum seljum.