Strandapósturinn - 01.06.2018, Side 58
56
Árið 1958
Undraland var smábýli þar sem aldrei var hægt að framfleyta fjöl-
skyldu á búskapnum einum saman, enda sótti faðir minn vinnu út
í frá eins og kostur var og svo Páll bróðir þegar hann hafði aldur
til.
Eins og fram hefur komið vann pabbi við smíðar utan heimilis.
Hann var góður smiður, hafði unnið við húsasmíðar á Reykja-
víkurárunum, við smíðar og múrverk í síldarverksmiðjunni á
Djúpavík og víðar og kunni því vel til verka.
Af byggingum sem hann vann við, utan byggingu húsanna á
Undralandi, var bygging allra útihúsanna á Kollafjarðarnesi,
þegar Alfreð flutti þangað 1955 og hóf þar uppbyggingu, hann
stundaði múrverk suður í Dalasýslu, smíðaði brú á Líká, byggði
ýmsar byggingar bæði á Broddanesi og Broddadalsá og víðar, sem
of langt yrði upp að telja. Þessi vinna skaffaði þær tekjur sem upp
á vantaði til að geta haft nóg fyrir sig framan af. Þegar við bræður
uxum úr grasi og urðum burðarmeiri við búverkin hafði pabbi
meiri tíma til að vinna að heiman.
Fljótlega kom að því Páll fór líka að sækja vinnu utan heimilis,
þar sem við Hreinn réðum orðið við verkefnin heima fyrir og
bústærðin útheimti ekki meiri vinnukraft en við gátum látið í té.
Þegar líða tekur á sjötta áratuginn blasir sífellt betur og betur
við, að vera fjölskyldunnar á Undralandi sé senn á enda runnin.
Þar væru engar aðstæður fyrir hendi til að uppfylla þau skilyrði
sem fjölskyldan setti fyrir framhaldinu.
Pabbi og mamma höfðu áhuga á að við gengjum í skóla, sjálfur
hafði pabbi farið í héraðsskólann á Laugarvatni og hlotið þar
góða alþýðumenntun, sem nýttist honum alla tíð og mamma
hafði farið í Húsmæðraskólann á Blönduósi og þar kynnst gildi
þess að sækja sér menntun, auk þess sem hún var ákaflega fróð-
leiksfús og hafði gaman að bóklestri og öðru sem laut að menntun
„unga fólksins“ eins og hún orðaði það stundum á seinni árum.
Þegar við eltumst og lukum barnaskóla stóðu foreldrar okkar
frammi fyrir þeirri augljósu staðreynd, að eina leiðin til að við
fengjum frekari skólagöngu væri að breyta til, taka sig upp af
Undralandi og leita þangað sem skóli væri í boði fyrir okkur og
vinnu að hafa fyrir fullorðna fólkið.