Bjarmi - 01.10.2021, Page 4
4 | bjarmi | október 2021
Áhugi á tækni og
tölvumálum leiddi
hann á Lindina
VIÐTAL VIÐ STEFÁN INGA GUÐJÓNSSON DAGSKRÁRSTJÓRA
HELENA LEIFSDÓTTIR
Glaður og þakklátur maður situr
við hljóðnemann á þessum frábæra
degi á útvarpsstöðinni sem boðar
kærleika Guðs í tali og tónum 24
tíma sólarhrings, 7 daga vikunnar.
„Ég verð í beinni útsendingu í dag.“
Þannig hljómar kveðjan til hlustenda
Lindarinnar þegar Stefán Ingi sest
við hljóðnemann. Við setjumst niður
með Stefáni Inga og tökum spjallið á
fallegum sumardegi.
Hver er þessi Stefán Ingi á Lindinni?
Ég heiti Stefán Ingi Guðjónsson og er
fæddur í Reykjavík 25. janúar 1968.
Systir mín heitir Steinunn og er 11 árum
eldri en ég. Foreldrar okkar voru Sigrún
Stefánsdóttir og Guðjón Ingimundarson
og eru þau bæði látin.
Ég er kvæntur frábærri og yndislegri
konu, Önnu Höllu Birgisdóttur og ég á
þrjár stórkostlegar stjúpdætur og frábæra
tengdamömmu.
Ég ólst upp í Reykjavík á Njálsgötunni,
bjó um tíma í Kleppsholtinu en svo fluttum
við í Seljahverfið þegar ég var tíu ára. Það
tók á að skipta um hverfi og skóla. Flest
eigum við góðar minningar um skólagöngu
okkar. Mér leið vel í Langholtsskóla en
ég glímdi við talgalla eða stam sem háði
mér svolítið í samskiptum. Sérstaklega
þegar ég var á unglingsárum. Ég lenti í
leiðinlegu einelti þegar ég var 13 til 15 ára
í Ölduselsskóla.
Hvernig gekk í skólanum?
Frá sjö ára aldri hafði ég stamað, það háði
mér auðvitað í daglegum samskiptum og
ég stamaði meira þegar ég var stressaður.
Mér var strítt í gagnfræðaskóla með
niðurlægjandi athugasemdum sem tók oft
á. Móðir mín var yndisleg og ákveðin kona
með sterkar skoðanir, en hún vissi hvað
drengnum hennar var fyrir bestu. Þegar
horft er til baka var ég lánsamur að móðir
mín ákvað að senda mig í danskennslu
til Heiðars Ástvaldssonar og í yngri deild
KFUM á Holtavegi 28. Í KFUM og síðar
unglingadeild KFUM og K eignaðist ég
góða vini og félaga, starfið var lifandi og
skemmtilegt. Ég fann enga þörf lengur fyrir
að reyna að vingast við bekkjarfélaga mína
í Ölduselsskóla.
Voru foreldrar þínir trúaðir?
Ekki get ég sagt það, ég var mjög náinn
foreldrum mínum og ólst upp við mikið
ástríki, þess vegna var auðvelt að fara
eftir ráðleggingum þeirra. Móðir mín hafði
kynnt sér starfsemi KFUM sem er kristileg
æskulýðshreyfing og sagði að það væri
góður félagsskapur fyrir unga drengi. Það
reyndist vera heillaspor fyrir mig að sækja
fundi á Holtaveginum. Þegar horft er til baka
var það algjörlega leitt af Guði.
Hvers vegna gafstu Guði?
Ég hafði sótt fundi hjá KFUM frá tíu ára
aldri, á unglingsárum voru KFUM og K vinir