Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.10.2021, Síða 15

Bjarmi - 01.10.2021, Síða 15
bjarmi | október 2021 | 15 „Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á Drottin og lætur Drottin vera athvarf sitt. Hann er sem tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sínar út að læknum, sem hræðist ekki, þótt hitinn komi, og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrkaári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt“ (Jer 17.7-8). Lífið er alls konar og á stundum bara erfitt. Á þeim stundum er gott að vita, að maður veit, að Drottinn er sá sem hann segist vera í orði sínu. Hann breytist ekki og er hinn sami í dag og hann hefur alltaf verið. Í samfélagi nútímans, þar sem eitt gildir í dag og annað á morgun og allt of margir eru uppteknir af því að ganga í augun á náunga sínum, er í raun merkilegt að lifa lífinu upptekinn af því sem alls ekki er í tísku eða þykir langt frá því að vera „hipp og kúl“ þ.e. að vera kristinn. Vera þjónn Guðs og líta á lífið hér á jörð sem aðeins upphaf eilífðarinnar með honum. Þetta er frelsandi líf og mjög gefandi. Þannig hefur gleði Guðs orðið styrkur minn og friður hans gefið mér jafnvægi, þrátt fyrir að á móti blási, en þannig er bara lífið. Mér finnst myndlíkingin úr þessu versi vera svo flott. Það er svo dásamlegt að geta verið áhyggjulaus þegar hitinn kemur, í þurrkaári, í hverju sem það er svo fólgið. Svo frábært að geta orðið eins og þetta tré og hafa að markmiði að geta borið ávöxt þ.e. lifað í kærleika, gleði, friði, sýnt gæsku, góðvild og langlyndi þrátt fyrir mótbyr, því ekki vil ég vera eins og strá í vindi heldur staðföst og grundvölluð í kærleika Krists. Fyrr á þessu ári þurfti ég að horfast í augu við sjálfa mig vegna heilsu minnar. Svo sem ekki í fyrsta sinn en þetta skiptið var það mjög erfitt. Ég fór og hitti lækni sem tók mig út, svona eins og fasteignasali sem er að gera söluyfirlit yfir fasteign sem hann hyggst selja. Eftir þessa heimsókn fór ég heim með það verkefni að fara yfir stöðu mína miðað við samtal okkar og skoða síðustu fjögur ár. Síðan mátti ég koma til hans hálfgerðri greinargerð. Mér þótti þetta ekki flókið og fór heim til að klára verkefnið. Þegar ég hafði rifjað upp, horft í hreinskilni á stöðuna og fengið vinkonu mína til að fara yfir þetta með mér, varð ég algjörlega miður mín. Ég upplifði mig algjörlega ónýta, ég gerði mér grein fyrir að ef ég væri bíll yrði ég send í pressuna og fengi kannski 20 þúsund fyrir. Ég gat ekki annað en skellt upp úr, þó þetta væri nú kannski ekki fyndið, en sem starfsmaður bílaumboðs var það nú kannski svolítið í þá áttina. Í framhaldinu helltist yfir mig sorg. Sorg yfir þessu klúðri. Sorg yfir líkamlegu ástandi mínu, sem ég hafði lagt mig alla fram að afneita. Sorg yfir breyttu lífsmunstri og sorg yfir því sem ekki gat orðið. Svo varð ég reið af því mistök áttu sér stað og ég hugsaði aftur og aftur, „ef ég hefði“ — já, ég varð allt í einu hálfvonlaus. Þetta varði í tvo daga. Mikið var þetta leiðinlegt, en þá ákvað ég að þetta væri komið nóg, enda sjálfsvorkunn hræðilegur pyttur. Ég minnti mig á þetta vers, að sá sem reiðir sig á Drottin er eins og þetta tré og ekkert hafði í raun breyst. Ég treysti Guði til að leiða líf mitt áfram eins og hann hafði gert hingað til og ákvað að taka stjórn á huga mínum. Njóta lífsins í breyttu landslagi sem ekkert endilega þyrfti að vera verra eða minna ævintýralegt en það sem áður var. Guð minn hafði ekki breyst, fyrirheit hans voru enn hin sömu og það sem meira er, að hann gerir kraftaverk enn í dag. Og þrátt fyrir allt, skiptir engu máli hverjar aðstæður mínar eru, það finnast tækifæri í öllum aðstæðum. Hann hefur alltaf áætlun, mér til heilla en ekki óhamingju. Ég er þakklát fyrir að eiga hann í hjarta mínu og geta fagnað og glaðst yfir blessunum mínum sem meðal annars eru fólgnar í yndislegri fjölskyldu og frábærum vinum, kirkjunni minni og fallega landinu mínu. Á göngunni með honum hef ég líka fengið tækifæri til að fara í ókunn lönd, hitta fólk sem ég hefði annars aldrei hitt, hýsa fólk frá ólíklegustu stöðum í veröldinni og ekki síst séð hann endurreisa fólk og gefa því líf og nýja von, endurheimta sjálfsvirðinguna. Já, þetta er gott líf. Uppáhaldsversið mitt GUÐLAUG TÓMASDÓTTIR

x

Bjarmi

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.