Bjarmi - 01.10.2021, Side 17
bjarmi | október 2021 | 17
koma nemendum í skilning um hebreska
hugsun og hve frábrugðin hún er okkar
grísk/rómversk/norrænu hugsun.
Í framhaldsnámskeiðinu var m.a.
lesinn allstór hluti 1. Mósebókar og
byrjað á byrjuninni, „bresjít“ á hebresku,
en það er fyrsta orð Biblíunnar og þýðir
„í upphafi“. Mjög nákvæmlega var farið í
allan texta, setningarbygging skoðuð og
möguleikar á tengingum orða miðað við
málfræðina. Hann benti m.a. á að þýða
má upphafssetningu 1. Mósebókar annars
vegar sem: „Í upphafi skapaði Guð himin
og jörð, og jörðin var auð og tóm“ eins og
hefð er, en einnig sem: „Í upphafi þess að
Guð skapaði himin og jörð var jörðin auð
og tóm.“ Það er svo sem ekki reginmunur
á, en þó er hann nokkur.
Ég ætla samt ekki að dvelja við það
hér. Það sem vakti fljótt athygli mína var
það sem stendur í lok 2. vers: „…og andi
Guðs sveif yfir vötnunum“. Og nú langar
mig til að lesendur fletti upp í Biblíunni og
lesi sköpunarsöguna hægt og rólega með
þetta orð í huga. Kannski fer ykkur eins og
mér að spyrja: Hvernig kom þessi texti til
okkar? Flestir þeirra sem trúa á Biblíuna
sem heilagt og óskeikult orð Guðs telja
að Guð hafi opinberað þetta Móse. Ekki
mótmæli ég því. En samt var það önnur
tilfinning sem greip mig. Við sjáum aftur og
aftur að Andi Guðs opinberar mönnunum
ýmsa hluti. Mér varð einnig hugsað til orða
Páls í Róm 8.16: „Sjálfur andinn vitnar
með vorum anda, að vér erum Guðs
börn.“ Og einnig Heb 10.15: „Og einnig
heilagur andi vitnar fyrir oss“, 1Pét 1.11:
„Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma
andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er
hann vitnaði fyrir fram um píslir Krists og
dýrðina þar á eftir“; og 1Jóh 5.67: „Og
andinn er sá sem vitnar … Því að þrír eru
þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið
og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og
þeir eru þrír sem vitna á jörðunni].“ Eins má
vísa til Jóh 3.31og áfr.: „Sá sem kemur að
ofan … vitnar um það sem hann hefur séð
og heyrt.“ Þar er að vísu verið að tala um
Jesú en tengingin var samt lifandi fyrir mér.
Það sem mér hefur síðan fundist vera
reyndin er einmitt þetta, að það er Andi
Guðs sem vitnar fyrir okkur mönnunum
sannleika Guðs. Og þarna er Andi Guðs
til staðar, „svífandi yfir vötnunum“. Það
er hann sem vitnar sem sjónarvottur, séð
frá þeim stað þar sem hann svífur yfir
vötnunum og horfir á hlutina gerast. Og
við vitum af öðrum stöðum í Biblíunni að
gerandi sköpunarinnar er Orðið, Jesús
Kristur, Sonurinn. „Allir hlutir urðu fyrir
hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.“
(Jóh 1.3.) Við sjáum sem sagt þríeinan
Guð hér að verki. Faðirinn er upphaf alls
og á bak við allt, Sonurinn gerandinn í
sköpuninni og Heilagur andi vitnið sem ber
til okkar sannleika Guðs, Orð hans.
Sköpunarsagan er þannig frásaga
séð frá jörðinni um sköpun Guðs, hvernig
ljósið kemur fyrst og síðan greinir Guð ljós
frá myrkri. Það er væntanlega sett fram í
senn bæði í efnislegum og siðfræðilegum
skilningi. Og það merkilega er að sól, tungl
og stjörnur sjást ekki fyrr en í 14. v., á
fjórða degi sköpunarinnar. Það er svolítið
merkilegt atriði inn í umræðuna um sköpun
jarðar á sjö dögum, sem svo margir telja
til venjulegra vikudaga eins og við þekkjum
þá. Hvað með „dagana“ þrjá fyrstu þegar
engin sól og tungl var til staðar? Hvað
var þá til að marka dag og nótt? Mér
finnst þetta styðja þá kenningu að með
„dögum“ sköpunarsögunnar sé um að
ræða tiltölulega óskilgreind tímabil sem
frekar er stutt af orðum sálmaskáldsins:
„Því að þúsund ár eru í þínum augum sem
dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já,
eins og næturvaka.“
Þegar við horfum á þetta frá þessu
sjónarhorni vitnisburðar Anda Guðs,
sjáum við að sköpunarsagan hin fyrri er
engan veginn úr samhljómi við niðurstöður
vísindanna. Röð atburða er hin sama í
meginatriðum. Sköpunarsagan hin fyrri
styður sem sagt vísindaniðurstöður. Ég segi
hin fyrri því að önnur sköpunarsaga sem
sett er fram í öðrum tilgangi kemur strax í lok
þessarar og fjallar um samskipti mannsins
við Guð og síðan fráfall hans en hún hefst
með 1Mós 2.4 eða 2.5 (ekki er víst hvort
vers 2.4 er lokin á fyrri sköpunarsögunni
eða upphaf þeirrar síðari).
Guð var sáttur við sköpun sína. Allt fór
eins og hann hafði ætlað. „Og það varð
svo. Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört,
og sjá, það var harla gott.“