Bjarmi - 01.10.2021, Qupperneq 21
bjarmi | apríl 2021 | 21
hana út. Þeir vissu að diskurinn myndi
seljast best ef hægt væri að selja hann
til styrktar góðgerðarsamtökum en ekkert
góðgerðarfélag sýndi því áhuga. Þá datt
bróður Guðrúnar í hug að bjóða Guðrúnu
að vera með í að stofna hjálparsamtök
og að nýta þetta tækifæri til að afla fjár
til þess að hrinda hugsjón hennar í verk.
Guðrún þáði það með þökkum og nefndi
samtökin ABC með vísan í tilgang þeirra
þ.e. að gefa fólki tækifæri til að læra að
lesa og skrifa og styðja börn til náms.
Tugþúsundir barna hafa notið góðs af
starfinu.
BÓKIN
Eins og nefnt var í formála var Guðrún
að gefa út bókina Skilningurinn á því hver
Jesús er: Grundvallarmunurinn á múslimum
og kristnum.
Gefum Guðrúnu orðið varðandi tilurð
bókarinnar:
„Bókin er þannig komin til að ég fæ
spámannlegt orð árið 2019. Ég veit að
margir eru mjög skeptískir á slíkt en hér er
um að ræða spádóm sem talaður er fram
af heilögum anda í gegnum sanntrúaða
manneskju sem er gerólíkt því að leita til
spákonu sem Biblían varar við. Það eru
ótal dæmi um slíka spádóma í Biblíunni
bæði í Gt. og Nt. En m.a. var innihald
spádómsins að ég ætti eftir að hafa
mikil áhrif í Íran, Írak og löndunum þar í
kring, án þess að fara þangað. Annar
hluti þessa spádóms fjallaði um að innra
með mér væru óskrifaðar bækur. Tveimur
mánuðum síðar er ég að hlusta á þennan
spádóm því hann var hljóðritaður og viti
menn, um leið og afspiluninni lauk kom titill
bókarinnar í hugann: „The Understanding
of Who Jesus Is; The Basic Difference
Between Muslims and Christians.“
Í raun sé ég, eftir á að hyggja, hvernig
Guð var búinn að undirbúa þetta verk.
Þannig var að fyrir nokkrum árum var
ég beðin um að koma í moskuna við
Skógarhlíð til að kenna konunum þar
íslensku. Ég gerði það og eignaðist þarna
góðar vinkonur sem buðu mig innilega
velkomna og hef ég haldið áfram að
heimsækja þær í moskuna þegar færi
hafa gefist. Svo þegar að bókin kom
til, sagði ég þeim frá henni og tóku
þau í moskunni þessu mjög vel. Imam
og framkvæmdastjóri moskunnar lásu
bókina yfir, án þess að gera nokkrar
athugasemdir. Reyndar lýstu þeir ánægju
sinni með bókina og hafa stutt mig í
þessu verkefni. Tekist hefur góð vinátta
með okkur í gegnum þetta samstarf.
Í bókinni tek ég fyrir fimm spurningar
sem múslimar og kristnir hafa svarað
á ólíkan hátt. Ég greini m.a. frá svörum
Kóransins og Biblíunnar við þessum
spurningum, hvað Jesús segir og fornir
sagnaritarar. Spurningarnar eru:
1. Dó Jesús á krossi?
2. Er Jesús sonur Guðs?
3. Er Jesús Guð?
4. Er Jesús frelsari heimsins?
5. Er Jesús meðalgangarinn á milli
Guðs og manna?“
Ég hef farið í stórum dráttum yfir trúargöngu
Guðrúnar Margrétar Pálsdóttir en alls ekki
á tæmandi hátt. Líf þessarar trúarhetju
ber vott um djörfung, hugrekki og traust á
Drottni Jesú Kristi. Lífshlaup hennar fram á
daginn í dag, hefur sýnt að Guði er ekkert
ómáttugt. Dýrð sé Guði.