Bjarmi - 01.10.2021, Qupperneq 23
bjarmi | október 2021 | 23
Ég trúi því að Biblían sé innblásið orð
Guðs, að það sé lifandi og kröftugt og
beittara hverju tvíeggjuðu sverði og að
það snúi ekki til baka fyrr en það hefur
unnið það verk sem Guð ætlar því. Það
hefur verið daglegur förunautur minn í
tugi ára og kemur alltaf ferskt og nýtt inn
í líf mitt og aðstæður.
Ég hef í gegnum tíðina átt mörg
uppáhaldsvers og í þessum skrifum
langar mig að benda ykkur á eitt þeirra.
Það stendur í Hebreabréfinu 11.1 og er
svona: „Trúin er fullvissa um það sem
menn vona, sannfæring um þá hluti
sem eigi er auðið að sjá.“ Þetta er svo
magnað, að það sem ég vona, verð ég
að vera sannfærð um að Guð geri þó ég
sjái það ekki núna. Þetta finnst mér svo
dásamlegt. Það er þetta með trúna. Við
skiljum ekki allt sem Guð segir eða gerir
en við trúum og treystum orði hans. Það
er ómögulegt að þóknast Guði án trúar.
Við verðum að trúa að hann sé til og að
hann beri umhyggju fyrir okkur. Hann
elskar okkur og þráir samfélag við okkur.
Hann vill að við komum fram fyrir hann
í trú og að við gerum honum kunnar
óskir okkar og þrár. Að hann opinberi fyrir
okkur orð sitt svo það nái að festa rætur
í lífi okkar og bera ávöxt til eilífs lífs. Inn í
allar aðstæður og á öllum tímum, sé okkar
lausn að leita til hans í trú, sannfærð um
að hann geti og vilji breyta öllum hlutum.
Við þurfum að lesa orð hans og trúa því,
standa á því og kunna það. Hann sendir
orð sitt til að bræða ísinn sem er í hjarta
þínu. Hann sendir orð sitt til að gleðja
hjarta þitt. Í orði hans er líf, lausn og
lækning. Hann gaf okkur það besta sem
hann átti, sinn eingetinn son, Jesú Krist,
Drottin okkar og frelsara. Hann frelsaði
okkur undan öllu óvinarins veldi. Hann
sendir engla sína til að gæta okkar á öllum
vegum okkar. Hann er alltaf nálægur og
aldrei fjarlægur. Hann er okkar fyrirmynd
og við eigum að spegla okkur í honum,
en ekki hvert í öðru, því hver og einn þarf
að koma fram fyrir Drottin í þeim mæli
trúar sem honum hefur verið gefinn.
Ekki gera þá kröfu á aðra kristna að þeir
lifi eftir þeim mæli trúar sem þú átt og ekki
dæma þá sem þér finnst ekki eiga næga
trú. Jesús kom ekki til að dæma heiminn
heldur til að frelsa hann. Og við eigum að
fylgja hans fordæmi. Verum þakklát fyrir
það sem við höfum eignast og munum
að trúin kemur af boðuninni en boðunin
byggist á orði Guðs. Þess vegna þurfum
við að lesa orðið og trúa því, reyna það,
ganga út á það og þá munum við sjá að
Guð er ekki maður sem lýgur heldur er
hann Guð, hinn eini sanni Guð sem aldrei
gengur á bak orða sinna. Hann er trúfastur
og góður Guð, faðir okkar himneski
sem elskar okkur óendanlega mikið.
Ég vona að þessi skrif mín hafi þau áhrif
á þig, að þú uppörvist og finnir fyrir elsku
Guðs til þín, því hann er persónulegur
Guð þinn og þráir samfélag við þig með
afbrýði andans. Þú ert svo mikils virði í
augum Guðs okkar. Vertu bara þú, svona
yndisleg sköpun Guðs og gefðu frá þér til
annarra þennan kærleika sem hann gaf
þér. Því meira sem þú gefur frá þér, þeim
mun meira færðu. Og ég bið fyrir einu og
sérhverju ykkar, að sú áætlun sem Guð
hefur fyrir líf ykkar, nái fram að ganga og
að hann fari fyrir ykkur í óslitinni sigurför.
Og gleymum ekki orðum Jesú í Jóh.
13:3435. „Nýtt boðorð gef ég ykkur,
að þið elskið hver annan. Eins og ég hef
elskað ykkur, skuluð þið einnig elska hver
annan. Á því munu allir þekkja, að þið
eruð mínir lærisveinar, ef þið berið elsku
hver til annars.“ Svo mörg voru þau orð
og þau eru sannarlega í gildi fyrir okkur
í dag.
Kærleikskveðja, ykkar Dadda.
Bréf til þín
– uppáhaldsversið mitt
SIGRÚN ÁSTA KRISTINSDÓTTIR