Bjarmi - 01.10.2021, Qupperneq 25
bjarmi | október 2021 | 25
Það hafa náttúrlega ýmsir komið. Ég
held að það hafi verið 1981, á öðru mótinu,
að við fengum Sigurbjörn Einarsson til
að koma og vera með okkur. Ég tók á
móti honum og Magneu á Akureyri um
morguninn. Við vildum nýta hann vel. Hann
var með biblíulestur og efni allan daginn.
Ég ók honum svo um kvöldið til Akureyrar.
Það fylgdi því dálítil stemmning að hafa
hann.
Það hafa margir talað hér og verið með
efni. Jóhannes Ólafsson var hérna á fyrstu
mótunum, Áslaug Johnsen kona hans var
þá á lífi.
Gunnar Sigurjónsson var með
biblíulestur á fyrsta mótinu. Ingunn
Gísladóttir hjúkrunarkona og kristniboði
var hér einnig.
Jónas Gíslason var hér með efni. Það
voru svo yfirleitt einhverjir kristniboðar
svo sem Jónas Þórisson og fleiri og Skúli
Svavarsson náttúrlega mjög oft.
Helgi Hróbjartsson var hér lengi, þegar
hann var hérlendis. Eins var Margrét systir
hans í nokkuð mörg ár með innlegg.
Samkomurnar voru áður í stofunni en
þar var þá stigi upp á loftið. Það var oft
mjög þétt setið, hvar sem hægt var að tylla
sér og þá einnig uppi á loftsskörinni. Það
komu líklega hátt í hundrað manns á mótið
þegar flest var. Þá tjölduðu margir og unga
fólkið notaði stóra heita pottinn mjög mikið.
Áhersla hefur verið lögð á kynningu
á kristniboðinu og alltaf verið biblíulestur,
bænastundir og vitnisburðarstund.
Við Helgi komum saman og lögðum
línurnar. Þetta var einkaframkvæmd okkar
í byrjun en svo kom Kristniboðssambandið
inn í þetta eftir að Skúli Svavarsson varð
framkvæmdastjóri þess.
Við Skúli vorum með þetta í mörg ár.
Nú er komin stjórn fyrir mótin. Með mér í
henni eru hjónin Kristján S. Sigurðsson og
Hulda Björg, dóttir Jónasar Þórissonar.
Ég hef alltaf verið ánægður með mótin
en það hafa að vísu verið hæðir og lægðir
en nokkuð stöðug aðsókn síðustu árin –
4050 manns – og svo hafa oft bæst við
gestir síðdegis á laugardeginum, helst frá
Akureyri og úr Hegranesi.
Mótsmessan hefur verið í ýmsum
kirkjum. Í samvinnu við Ólaf Hallgrímsson á
Mælifelli var hún nokkuð oft í Reykjakirkju,
einnig á Mælifelli og tvisvar inni í Goðdölum.
Við vorum oft í Glaumbæ og á Sauðárkróki
og á Hólum tvisvar eða þrisvar. Einu sinni á
Hofsósi en núna síðustu árin á Miklabæ hjá
henni Döllu Þórðardóttur prófasti sem ljúft
samstarf hefur verið við. Í hittiðfyrra vorum
við reyndar á Flugumýri.
Langamýri er vel staðsett, rétt við
hringveginn en samt í góðu skjóli frá
umferðinni. Ólíku er nú saman að jafna
með samgöngurnar miðað við það sem
var á fyrri árum. Mótin hafa auðveldað
fólki í mismunandi landshlutum að halda
tengslum og ný dýrmæt kynni hafa
skapast þegar nýtt fólk úr ýmsum áttum
hefur bæst í hópinn. Nú síðast t.d. úr
hvítasunnusöfnuðinum í Vestmannaeyjum.
Við gestir austan af landi þökkum Jóni
Oddgeiri greinargóð svör um merkan þátt
kristniboðssögunnar á Íslandi sem ætti
skilið að fá ítarlegri umfjöllun.
Leifur Sigurðsson kristniboði flytur hugleiðingu frá Japan
Jón Oddgeir Guðmundsson