Bjarmi - 01.10.2021, Side 34
34 | bjarmi | október 2021
Rómarríki og innan hins hellenska heims
voru oft myndir við grafir ástvina sem
minntu á líf viðkomandi. Við kristnar grafir
er snemma að finna myndir um dauðann
sem svefn og vonina um upprisu og/eða
lífið eftir dauðann. Þær vísa í efni úr Gamla
testamentinu, eins og fórn Abrahams,
uppsprettuundur Móse í eyðimörkinni,
Jónas í hvalnum eða í sálma Davíðs þar
sem er fjallað um að hvíla í skugga náðar
Guðs. Úr Nýja testamentinu er efnið, skírn
Jesú, samtal hans við samversku konuna,
lækning hins lama eða upprisa Lasarusar.
Áherslurnar eru skýrar, björgun mannsins
fyrir náð Guðs. Ísak er bjargað frá dauða,
Jónasi úr fangi kaosaflanna (óreiðunnar)
sem sjórinn og fiskurinn eru fulltrúar
fyrir, hinn lami og Lasarus eru í orðsins
fyllstu merkingu kallaðir aftur til lífsins.
Vatnið í myndefninu vísar aftur á móti til
skírnarinnar og undirstrikar það eilífa líf
sem skírnarþeginn á. Myndefnið á að
miðla huggun og von. Myndlistarmennirnir
voru óhræddir við að nota fyrirmyndir úr
umhverfinu. Þetta efni er áberandi við grafir
kristins fólks í katakombunum í Róm, en
þær elstu eru frá byrjun þriðju aldar. Auk
þessa er að finna efni með beinar tilvísanir
í líf viðkomandi. Algengt er að karlmenn
séu sýndir við lestur og konur við bæn en
þetta myndefni er þegar þekkt í rómverskri
menningu til að draga fram trúrækni
viðkomandi.
Ef hugað er að skírnarkapellunni í Dura
Europos þá samræmist hún þessu vel. Þar
er greint frá meginefni hjálpræðissögunnar
í myndum með mynd af Adam og Evu í
tengslum við syndafallið (1Mós 3.1–7),
þar er mynd af hirði, baráttu Davíðs og
Golíats (1Sam 17.51), lækningu hins lama
(Matt 9.1–18), er Jesús gengur á vatni
(Matt 14.22–23), samversku konunni við
brunninn (Jóh 4.5–29), tilvísun í dæmisögu
Jesú um fávísu og vitru meyjarnar (Matt
25.1–13) og mynd af konunum við gröf
Jesú (Mrk 16.1–4). Áberandi er að allar
1 Greinin er brot úr BAritgerð í listfræði við Háskóla Íslands: Myndbann og afhelgun: Alræðiskenningar afhjúpaðar í myndmáli, nóv. 2020. Efnið er aðeins stytt og einfaldað.
2 Um heimildir greinarinnar vísast til ítarlegrar heimildaskráningar á bls. 4548 í áðurnefndri BAritgerð sem finna má á skemman.is.
þessar myndir eru ekki viðfang tilbeiðslu
heldur vísa til þátta í ritum Ritningarinnar
og „sögulegra“ atburða í tengslum við líf,
starf, dauða og upprisu Jesú. Kristur er
ætíð staðsettur innan sögu sinnar eins og
greint er frá henni í guðspjöllunum.
Á þriðju öld og við upphaf þeirrar
fjórðu fer að bera á að myndirnar sjálfar
verði viðfang tilbeiðslu sem samræmdist
ekki kristnum trúarskilningi og var m.a.
andmælt á áðurnefndu kirkjuþingi í Elvíra
306. Þar var hnykkt á vægi myndbannsins
en vægi þess fyrir kristna söfnuði birtist
skýrast í höfnun þeirra á keisaradýrkuninni.
NIÐURSTAÐA
Af ofangreindu er ljóst að innan kristninnar
var sýn manna á vægi mynda jafnan
jákvæð, þótt varað væri við þeirri hættu að
fólk beindi bænum sínum að myndum eða
færi að tilbiðja þær.